150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni gott svar. Ég tek heils hugar undir með honum, ég held að þessi þáttur hafi bara ekki farið nægilega vel af stað þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma. Í því sambandi vil ég einnig nefna að ég held að það sé líka nauðsynlegt að ræða þennan matskennda þátt sem við erum að ræða hér fram og til baka, hvað fellur undir við fjáraukann og hvað ekki. Vonandi innan ekki svo langs tíma sjáum við að það er ekki þörf fyrir frumvarp til fjáraukalaga eins og hv. þingmaður nefndi. Ég tek heils hugar undir að það er að sjálfsögðu markmiðið og við náum þessu markmiði ekki öðruvísi en að allir vinni saman að því og þá er þetta kynnt (Forseti hringir.) rækilega eins og nefnt er í nefndarálitinu. Ég held að það sé lykillinn að því að við náum eðlilegri vinnu með þessi ágætu lög.