150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[20:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít pínu á þetta á þann hátt með fordæmisgildið að önnur breytingartillaga liggur núna fyrir á þessum fjáraukalögum um óvæntar og ófyrirséðar tekjur sem er búin til einhvers konar fjárfestingarheimild fyrir. Það er víst svo auðvelt samkvæmt lögum um opinber fjármál og sjálfsagt að færa fjárfestingarheimild á milli ára að það er einhvern veginn allt í lagi. Það var verið að setja þetta í mjög skrýtinn kassa. Ég prófa þá að snúa rökunum við: Væri það ekki svipuð æfing með fjárheimildaleikfimi ef við settum í fjárheimildir fyrir næsta ár, á næstu fjárlögum, fjárfestingarheimild lögreglunnar um t.d. þessi tækjakaup en myndum flytja þær fjárheimildir fram yfir áramótin í fjáraukalögunum þannig að lögreglustjórinn myndi nýta tækifærið núna, kannski af því að það væri einhver rosalegur desemberafsláttur til að kaupa þennan búnað? Þegar allt kemur til alls mætti lögreglustjóri nýta sér hagkvæmni sem rök fyrir því að kaupa t.d. viðkomandi búnað í desember miðað við fjárheimildir sem hann ætti á árinu 2020, á næsta ári. Ég veit ekki hvort það passar endilega inn á milli þessara ára. Það ætti kannski að vera sveigjanlegt hvað þetta varðar en með varasjóðinn sé ég þann sveigjanleika ekki og mér finnst það rosalega skrýtið að koma með margar (Forseti hringir.) af þessum fjárheimildum til þingsins í staðinn fyrir að afgreiða þær í varasjóð áður. Ég kem að því aðeins betur seinna.