150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[20:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi þessa alþjónustu: Hvað kostar hin lögbundna skylda kirkjunnar? Ég hef ekki hugmynd, ekki minnstu hugmynd. Ef við værum með einhvers konar alþjónusturamma utan um hana væri alla vega komin ákveðin greining á því. Það myndi kannski upplýsa okkur um hvað þyrfti að gera í lögunum til að gera þá þjónustu hagkvæmari, hver veit. Það leiðir mig yfir á hið almenna svið þjónustusamninga ríkisins. Á minni tíð í fjárlaganefnd hefur aldrei verið farið yfir þjónustusamninga ríkisins og skoðað hvort þeir skili þeim markmiðum sem þeim er ætlað samkvæmt lögum um opinber fjármál, af hverju upphæðirnar séu á einn eða annan veg eða hvað við fáum fyrir hitt og þetta. Það er kannski áhugavert í heildarsamhenginu hvað þessa samninga varðar að setja á dagskrá eftirlit með framkvæmd fjárlaga.