150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[21:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þegar við samþykktum lög um opinber fjármál var mikið rætt um bætt áætlunarferli og við horfðum til baka yfir söguna þar sem fjáraukalögin höfðu verið mjög digur og jafnvel 5% — og að jafnaði 5% — af útgjöldunum fóru í gegnum fjáraukalögin. Hugmyndin með varasjóðunum var sú að áætla bara fyrir einhverju óvæntu sem dæmin og sagan sýndu okkur að kæmi iðulega upp þannig að við værum búin að áætla fyrir öllu saman og þá væru fjáraukalögin óþörf. Varasjóðurinn stóri — það eru náttúrlega strangar reglur um hann, en síðan eru varasjóðir fyrir einstaka málaflokka og þeir eru hugsaðir til að auka sveigjanleika. Ég nefni sem dæmi varasjóð fyrir málaflokkinn framhaldsskóla. Segjum að nemendum fjölgi óvænt, þá er hægt að grípa til sjóðsins og það þarf ekki að koma með fjáraukalagatillögu.

En í tillögu með því frumvarpi sem við erum að ræða er 40 millj. kr. framlag til heilsugæslunnar á Suðurnesjum. Það er talað um að það sé vegna þess að íbúum hafi fjölgað og þar sé fólk af erlendum uppruna í háu hlutfalli og svo séu margir atvinnulausir. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji í raun að þarna sé um að ræða eitthvað sem var ófyrirséð, hvort þetta hefði ekki öllum mátt vera ljóst, (Forseti hringir.) að það þyrfti a.m.k. 40 millj. kr. og auðvitað heldur meira ef eitthvað er.