150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[21:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar góðu hugleiðingar og andsvar hvað varðar Suðurnesin og stöðu þeirra þegar kemur að opinberri þjónustu. Við þekkjum hana. Hv. þingmaður hefur einnig flutt breytingartillögu um aukin útgjöld, t.d. til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Sá sem hér stendur flutti breytingartillögu við þessi fjárlög. Þær tillögur hafa allar verið felldar af ríkisstjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum og Framsóknarflokki. Að sjálfsögðu vonast ég til þess að nú fari menn loksins að taka við sér þegar áðurnefnd nefnd kemur til með að skila af sér — og ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæði hennar í þeim efnum, mjög brýnt mál.

En maður spyr sjálfan sig: Þarf alltaf einhver að setja á laggirnar einhverjar nefndir til þess að stjórnvöld taki loksins við sér? Eins og hv. þingmaður nefndi er það bara þannig, og það vita allir, að fólksfjölgun á Suðurnesjum er fordæmalaus og það á að vera nóg til þess að stjórnvöld taki við sér. Ég held persónulega að þessi ákveðna fjárveiting sem nú er að koma í gegnum fjáraukann sé fyrst og fremst komin til vegna þess að það varð gjaldþrot flugfélags á Suðurnesjum. Ég er ekkert viss um að þau hefðu tekið við sér öðruvísi. Ríkisstjórnin varð að sýna einhver viðbrögð. Þetta var stórt og mikið gjaldþrot, um 1.000 manns misstu atvinnuna, og ríkisstjórnin varð að sýna eitthvert frumkvæði og þá kemur loforð um að bregðast við og það er tengt þessari fólksfjölgun. Eins og ég segi fögnum við þessari tillögu og við munum styðja hana í fjáraukanum. En ég held hins vegar að ríkisstjórnin hafi verið allt of sein að taka við sér í þessari fordæmalausu fjölgun á Suðurnesjum og (Forseti hringir.) þeirri auknu þjónustu sem hið opinbera verður að veita, lögbundnu þjónustu, það er rétt að hafa í huga.