150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[21:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hin nýju lög sem við höfum verið að læra inn á, lög um opinber fjármál, hafa tvímælalaust verið til góðs. Vissulega fer það hlutfall sem fer í gegnum fjáraukann lækkandi og því ber að fagna. Vonandi komumst við á þann tímapunkt innan ekki svo langs tíma að fjáraukinn verði óþarfur.

En það sem veldur mér áhyggjum í þessum efnum, hv. þingmaður, er að það virðist tilhneiging til þess að menn nái ekki alveg að slíta sig frá þessu gamla fyrirkomulagi, séu svolítið fastir í því að það sé hægt að leita í fjáraukann og geri sér ekki grein fyrir því að það séu til varasjóðir, sem kannski þarf að byggja betur undir, ég skal ekki segja til um það. En alla vega held ég að hv. formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Willum Þór Þórsson, hafi verið sammála mér um að það þurfi jafnvel bara að kynna enn betur fyrir ráðuneytunum mikilvægi þess að menn leiti í varasjóðina þegar svo ber undir að það gerist eitthvað óvænt og ófyrirséð. Við eigum ekki að þurfa að vera að karpa um það hér endalaust hvort þessi fjárveiting eigi heima þarna inni eða ekki. Ég segi persónulega, eins og ég sagði í ræðu, að mér finnst fullkomlega óeðlilegt að við séum að ræða það hér að það séu bara 8 millj. kr. settar inn í fjárauka fyrir þetta verkefni í dómsmálaráðuneytinu. Þetta á náttúrlega að vera í varasjóði þangað sem hægt er að leita með eðlilegum hætti. Niðurstaðan er kannski þessi: Vonandi náum við því innan ekki svo langs tíma að fjáraukinn verði óþarfur.