150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[21:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hefur kannski túlkað ræðu mína fulljákvætt ef hann segir að ég hafi fullyrt að við værum á réttri leið. Ég sagði að ýmislegt væri á réttri leið og annað væri verra. Ég sagði hins vegar að okkur skorti kjark og framtíðarsýn, okkur öll, ekki bara stjórnarliða. Okkur skortir að þora að hugsa stærra og fram í tímann og mæta breyttum tímum. Ég tók raforkuflutningana sem dæmi um það hvað getur verið dýrt annaðhvort að spara eða þá að geta ekki komið framfaramálum í gegn. Við okkur blasir auðvitað afleiddur kostnaður sem er vegna þessa atburða núna en líka það ójafnræði sem er í búsetuskilyrðum landsmanna sem er ekkert talað um dag frá degi en við þekkjum. Við þurfum að ráðast í það.

Ég veit að það eru ýmsar aðrar torfærur en akkúrat skortur á fjármagni í þessar tilteknu framkvæmdir. En við þurfum líka að vera nógu stórhuga, víðsýn, sanngjörn, sáttfús og djörf til að yfirvinna þær, hvort sem þær snerta viðhorf landsmanna, skipulagslög eða annað. Ég veit að þetta er allt samhangandi. Ég er eiginlega að hvetja okkur til þess að setja nógu mikið fjármagn í þá hluti sem við vitum að við þurfum að gera þannig að það spretti ekki upp kostnaður annars staðar, oft hjá blásaklausu fólki sem hefur ekkert til saka unnið annað en að borga skattana sína, mæta í vinnu og ala upp börnin sín.