150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[21:59]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó bara eftir því áðan í umræðunni að hv. þingmaður kom aðeins inn á raforkuna og þess vegna vildi ég koma upp og segja að það væri ekki fjárskortur þar. Það er eitthvað annað sem er að stoppa för. Hins vegar tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni að auðvitað viljum við sem höfum mikla framtíðarsýn um samgöngur í landinu, raforkuflutning, fjarskipti og annað að við byggjum upp þessi mikilvægu kerfi, sjúkrahúsin, menntunina, þannig að við erum á sama stað þar.

Það er margt jákvætt að gerast í efnahagslífi okkar. Það er t.d. eitt atriði sem ég tók eftir í fjárlaganefnd og hefur komið fram í fjölmiðlum síðan að þegar fulltrúar Hagstofunnar komu fyrir nefndina bentu þeir á að kostnaður við rekstur á húsnæði á Íslandi, bæði í fjárfestingunni og síðan bara í rekstri, er orðinn lægri á Íslandi í dag en á hinum Norðurlöndunum. Þetta er eitthvað sem hefur ekki mikið verið rætt en vakti athygli mína. Mig minnir að talan hafi verið sú að hjá 80% íslenskra heimila í dag fari innan við 10% af ráðstöfunartekjum í rekstur húsnæðis og að reka heimili. Slíkar tölur höfum við aldrei í íslenskri sögu þekkt. Við erum að sjá ótrúlega víða mjög jákvæð skref. En ég kom fyrst og fremst upp til að ræða það sem sneri að þessum málum málanna akkúrat þessa dagana á stórum hluta landsins sem er raforkukerfið og hvað það hefur gengið illa að fjárfesta í því á stórum landsvæðum vegna skipulagsforsendna eða framkvæmdaleyfa og endalaust verið að kæra þau ferli. Það er búið að taka 10, 15, 20 ár á stórum landsvæðum að koma þeim hlutum í lag.