150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[22:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, já, en fólk er líka að kæra eitthvað með vísan í lög sem eru sett hér. Það er þá augljóst að við eigum að byrja á því að reyna að greiða úr því. Ég er alveg sammála að það er mjög margt jákvætt í atvinnulífi okkar og hefur verið síðustu árin. Við byggjum á miklu fjölbreyttari stoðum, sem betur fer. Við erum farin að byggja meira á fullvinnslu, hugviti, nýsköpun og þekkingu en við höfum gert og er af hinu góða. Það skilar sér líka í húsnæði þótt ég verði því miður að halda því fram að það hafi svona frekar dregið í sundur með okkur og hinum Norðurlöndunum þegar kemur að nýsköpun í byggingariðnaði og þekki ég það býsna vel. Þar held ég kannski að stærsta ástæðan sé hinn eitraði kokteill hár fjármagnskostnaður og lítil framleiðni vegna þess að við erum að nota frekar gamaldags byggingaraðferðir. Það er auðvitað ánægjulegt ef það er rétt að húsnæðiskostnaður hér sé minni. En svo getur það oft gerst þegar verið er að hraða byggingum og gera þær ódýrari í mjög dýru umhverfi eins og við erum með að það bitnar á gæðum. Ég tók nú eftir í fjáraukanum að þar er vísað til myglu hjá landlækni, held ég að það hafi verið. Maður getur spurt sig þegar maður sér svoleiðis tölur: Er það óvænt uppákoma eða stafar það af því að ríki og hið opinbera láta ekki þau 2,5% sem þarf á hverju einasta ári til að viðhalda byggingum svo þær séu í lagi? Er það eitthvað sem sprettur upp bara allt í einu 40 árum seinna? Ég held ekki. Ég held að við þurfum að vanda okkur betur í allri áætlunargerð og vera stórhuga í hugsun.