150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[22:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Það blasir við að við Miðflokksfólk erum alla vega á því róli að við viljum gæta varúðar og hafa festu. Það sést kannski einna best í því að allar tillögur sem við höfum flutt við fjárlög síðastliðin tvö ár hafa verið fullfjármagnaðar og verið frekar hófsamar í upphæðum. Ég man eftir því að hér komu fram tillögur um daginn sem vörðuðu almannaþjónustu og voru upp á 38 milljarða kr., ef ég man rétt, ófjármagnaðar. Það er algerlega óábyrgt og í sjálfu sér kannski sett fram til að slá ryki í augu fólks sem heldur svo að þeir sem vilja ekki standa svona tillögum séu ekki að hugsa um almannahag. Því fer fjarri. Þær tillögur sem við höfum sjálf lagt fram hafa verið, eins og ég segi, hófsamar, hægt að uppfylla þær og fullfjármagnaðar. Við höfum ætíð lagt áherslu á að gæta varúðar og ég hef einmitt og við fleiri í Miðflokknum höfum bent á það, af því að við erum ekki skattahækkunarflokkur, að þær álögur sem þegar hafa verið lagðar á beri að innheimta. Ég fór yfir það ágætlega áðan að það sé nauðsynlegt líka til að gæta að samkeppni. En það læðist að manni sá grunur og maður sér ekki fyrir sér að það sé nein sérstök fyrirhyggja í fjármálunum. Það var heldur engin sérstök fyrirhyggja í síðasta fjárlagafrumvarpi af því að menn vöknuðu allt í einu upp við vondan draum sem margir höfðu varað við. Ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn á það að menn nái endilega tökum á fjármálum ríkisins næstu árin. Það er kosningafjárlagafrumvarp næsta haust þannig að ég er ekki mjög bjartsýnn á næstu misseri.