150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[22:28]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir svörin. Hv. þingmaður fór víða í sinni ræðu en drap á tvennt sem er mjög athyglisvert, í fyrsta lagi innheimtu skatta og gjalda. Nú erum við báðir hv. þingmenn eldri en tvævetur og vitum að ávallt er talað um að það þurfi að bæta innheimtu. Það er búið að gefa út margar skýrslur þar sem reynt er að slá einhverri tölu á það hvað þetta kostar samfélagið og ég held að mig misminni ekki að samkvæmt nýjustu skýrslunni séu menn að áætla að þetta gætu verið allt upp undir 80 milljarðar kr., þannig að það er ekki eftir neinu smáræði að slægjast. Um þetta er gjarnan talað en minna verður úr verki og maður áttar sig ekki alveg á því af hverju það er. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður kann einhverjar skýringar á því.

Síðan er hitt, og mér sýnist það vera í tíð hæstv. ríkisstjórnar, að menn eru svolítið í því að spara aurinn og kasta krónunni. Hv. þingmaður nefndi einmitt mjög gott dæmi þess þegar hann vék tali sínu að liðskiptaaðgerðum. Þar erum við hjartanlega sammála um að því fjármagni væri vel varið til að hjálpa því fólki sem þarf á slíkum aðgerðum að halda og sparnaðurinn sem myndi fylgja í kjölfarið yrði gríðarlegur því að kostnaðurinn af því að hafa fólk óvinnufært og þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu er (Forseti hringir.) gríðarlega mikill. Maður skilur ekki alveg hvaða trúarbrögð það eru sem ráða ferðinni (Forseti hringir.) og spurning hvort hv. þingmaður sem er slyngur í trúarbragðafræðum geti skýrt þetta út fyrir mér