150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[22:33]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði rétt að koma inn á nokkra punkta sem hv. þingmaður kom með í ræðu sinni, eins og með innheimtu ríkissjóðs. Það kom fram að á þessu ári er verið að bæta við 200–300, eða eru það 350 milljónir? Ég man ekki tölurnar, var með þær inni í fjárlaganefndinni. Það er verið að bæta umtalsvert í nákvæmlega þetta atriði sem er innheimta ríkissjóðs.

Mig langar rétt líka að koma inn á Airbnb. Það á kannski ekki að nota það orð hér í þingsal en það er bara yfirleitt talað um þetta undir þessum hatti. Það var sett á gistieftirlit í maí í fyrra. Þetta eru um 68 milljónir, ef ég man rétt, og það sannaði sig mjög vel, kom til baka í gegnum sektargreiðslur og slíka þætti. En það sem gerðist var að það stórminnkaði líka það sem við teljum vera svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustunni, í gistingunni, gistiþættinum í ferðaþjónustunni. Ég hef svo sem ekki heyrt nýjustu tölurnar um hvernig þetta hefur þróast en við þykjumst vita að Airbnb hefur minnkað mikið. Það var metið þannig að þegar menn fóru af stað í gistieftirlitið, varðandi Airbnb sérstaklega, að þetta hafi verið um 80% svört starfsemi en hefði fljótlega farið niður í 50%. Ég hef ekki nýjustu tölurnar en það hefur væntanlega lækkað töluvert mikið síðan þá. Það er að nást mikill árangur akkúrat í þessum þætti og það virðist vera að þegar dregur úr ferðaþjónustu sæki ferðamenn meira inn á viðurkennd gistiheimili og hótel. Það er þróun sem er að verða núna og straumurinn liggur þangað.

Ég vildi bara koma þessu á framfæri. Það er mikilvægt að komið sé að þessu með innheimtu ríkissjóðs og varðandi Airbnb og gistieftirlit. Það er að nást árangur nákvæmlega í þessum málum sem mér fannst vera (Forseti hringir.) vanmat á hér áðan í ræðu hv. þingmanns.