150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[22:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar en það kom reyndar fram í ræðu minni að ég kannaðist vel við það og ég tók það fram að hæstv. iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra hefði einmitt sett þennan starfshóp á fót og ég fagnaði því. Í sex ár talaði ég hér í þessum sal fyrir daufum eyrum um að þetta yrði gert. Auðvitað fagna ég því að þetta sé gert.

Viðbætur inn í skatteftirlitið og skattheimtuna kannast ég líka við. Ég kannast líka við að í fyrra lagði Miðflokkurinn til að það yrði ráðið líklega í 15 stöðugildi, bæði hjá ríkisskattstjóra og hjá skattrannsóknarstjóra. Þetta var fellt, að sjálfsögðu. En ég segi aftur: Hér talar gamall innheimtumaður ríkissjóðs sem hefur þó nokkra reynslu af því hvernig það er þegar menn bæta við í skattheimtu og herða eftirlit. Ég ætla bara að nefna eitt lítið dæmi. Það er mál sem við höfum lagt fram æ ofan í æ hér, Miðflokksfólk, síðast um daginn fyrir þrem vikum síðan og hv. þingmaður sem hér talaði á undan mér felldi. Það er að efla tollgæslu á landamærum. Hvað er þar? Það er pakkaafgreiðsla, herra forseti. Það eru milljónir og milljónir og hundruð milljóna sem fara forgörðum vegna þess að menn vilja ekki og hafa ekki sýnt dug í sér til þess að efla einmitt tollgæslu á landamærum. Því miður. Þetta höfum við bent á ítrekað vegna þess að sum okkar hafa reynslu af þessu.

Hvað varðar Airbnb, svo ég segi það orð aftur, herra forseti, ég biðst afsökunar en orðið hefur ekki verið íslenskað svo ég viti, þá virðist svo vera að við séum að fá verðmætari farþega, ef svo má að orði komast, núna til Íslands heldur en áður var, fólk sem dvelur lengur og, rétt eins og hv. þingmaður sagði, dvelur á viðurkenndum gistiheimilum. Allt þetta rakti ég svo sem í ræðu minni en betur má ef duga skal og þess vegna lögðum við Miðflokksfólkið t.d. til um daginn að (Forseti hringir.) tollgæsla á landamærum yrði efld og lögðum til 250 milljónir eða eitthvað slíkt, bæði í tækjabúnað og mannskap, og það var fellt.