150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[22:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Satt að segja átti ég nú von á því, og á svo sem von á því enn því að ekki hefur dagskrá þingsins verið breytt, að þetta væri næstsíðasti dagurinn í þinginu og við værum komin á síðustu metrana við að klára þau mál sem hér liggja fyrir. En því er ekki að heilsa. Jólaskapið verður að bíða um sinn.

Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga. Satt best að segja er það svo að þegar maður stendur hér og er búinn að fara aðeins yfir frumvarpið, hlusta fyrst á flutningsræðu hæstv. fjármálaráðherra og síðan á umræðurnar í kjölfarið, þá er ekki laust við að maður fái þau hughrif að maður hafi verið hér áður og eiginlega hlustað meira og minna á sömu ræðurnar fram og til baka. Auðvitað snýst þetta mál að stórum hluta um það að okkur tekst ekki, eins og til var stofnað, að fylgja lögum um opinber fjármál. Eitt af höfuðmarkmiðum þeirra er að gera það að hreinni undantekningu að það þurfi sérstök fjáraukalög. Þetta virðist okkur ekki takast og ágreiningsefnin eða viðfangsefnin, skulum við kalla þau, eru meira og minna alltaf þau sömu, þ.e. menn virðast yfirleitt vera miklu bjartsýnni um framvindu efnahagsmála en ástæða er til. Maður hefði haldið að smátt og smátt myndu menn læra að það er óvarlegt að treysta um of á að efnahagsframvindan verði í fullu samræmi við það sem spáð er. Sérstaklega er þetta varasamt ef menn nýta tækifærið í ljósi bjartsýnna spáa — kannski eru þær ekki endilega bjartsýnar akkúrat á þeim tíma, ég skal ekkert segja um það, þær eru auðvitað ýmiss konar — til að spenna bogann. Það er mjög óvarlegt, þá má ekkert út af bregða til þess að menn þurfi ekki að leggja fram fjáraukalög af þessu tagi. Það er alveg það sama og gilti um fjárlögin sem við vorum að samþykkja og fjárlögin þar á undan, það voru mjög margar viðvörunarbjöllur sem hringdu. Margir hv. þingmenn, þar á meðal þingmenn Viðreisnar, voru óþreytandi við að benda á að hér væri óvarlega farið. Það hefur í sjálfu sér komið á daginn að það var farið fullgeyst.

Auðvitað ber að hrósa því sem vel hefur verið gert. Það hefur margt verið vel gert og að mörgu leyti stöndum við afar vel, að sjálfsögðu. En það breytir ekki því að í þessu tilliti erum við ekki að ná þeim árangri sem ný lög kalla á eða nýleg lög, þau eru náttúrlega ekki lengur ný. Menn hafa talað um það lengi að við værum í aðlögunarfasa, þetta tæki tíma. Auðvitað tekur það tíma en mér finnst sá tími vera farinn að verða langur.

Mér fannst athyglisvert það sem kom fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjáraukalögin þar sem er verið að fjalla um lög um opinber fjármál og er allt satt og rétt sem þar segir. En mér finnst býsna merkilegt það sem kemur fram í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarpið. Ef ég má vitna í álit meiri hlutans um umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarpið kemur fram að það sé í öllum meginatriðum í samræmi við lög um opinber fjármál.“

Það hlýtur að vera nokkurt áhyggjuefni og umhugsunarefni fyrir þá sem stjórna fjármálum landsins að Ríkisendurskoðun skuli segja að frumvarpið sé í meginatriðum í samræmi við lög. Mér finnst í nefndarálitinu og frumvarpinu sjálfu og greinargerðinni mjög léttilega skautað yfir það að framkvæmdin sé bara í meginatriðum í samræmi við lög. Maður hefði haldið að það væri sérstakt keppikefli stjórnvalda, ekki síst á sviði fjármála, að þeirra framgangur væri einmitt að fullu í samræmi við lög. Við hv. þingmenn ætlumst a.m.k. til þess þegar við setjum lög hér á Alþingi að eftir þeim sé farið að öllu leyti. Ef menn gera það ekki er oftar en ekki ákvæði um að þá mæti stjórnvöld á staðinn og viðurlögum sé beitt. Menn komast ekki upp með að fara bara að hluta til að lögum. Þetta finnst mér atriði sem að stjórnvöld ættu að taka meira mark á.

Auðvitað verða menn þegar þeir spá í framtíðina að styðjast við hagspár. Annað er svo sem ekki hægt. Því hefur gjarnan verið haldið fram í þessari umræðu að menn geri það og auðvitað gera þeir það. En menn hafa svolítið bundið sig við eina tiltekna hagspá, Hagstofunnar. Nú er ekkert í lögum um opinber fjármál sem segir að það sé eina hagspáin sem eigi að taka mark á. Það eru margir aðilar sem gefa út hagspár. Þær geta verið býsna ólíkar þannig að vissulega er þeim vandi á höndum sem byggja áætlanir sínar á því að velja hvaða hagspár eigi að miða við. En í ljósi reynslunnar er ég svolítið hissa á því hvað stjórnvöld eru treg til þess að hafa fleira undir þegar þau ákveða fjárlög, hvað þau binda sig mikið við eina tiltekna spá. Síðan þekkjum við það nú að okkur hefur miðað umtalsvert áfram. Ég vil ekki gera lítið úr því. Við höfum náð að mörgu leyti miklum árangri, vil ég bara segja, við stjórn efnahagsmála og þá er ég einkum að horfa til þess að við höfum náð verðbólgu umtalsvert niður. Það er orðinn meiri stöðugleiki miðað við það sem áður var í samfélaginu.

Þess vegna er enn mikilvægara að við gleymum því samt ekki og við ættum aldrei að gleyma því að það eru ýmis atriði sem geta breyst til verri vegar. Við höfum lengi stundað sjóinn. Við erum auðlindadrifið hagkerfi og það getur orðið aflabrestur. Það geta orðið vond veður. Þau geta valdið búsifjum til sjós og lands og við upplifðum það einmitt fyrir nokkrum dögum að veðrið lét á sér kræla og olli miklu tjóni. Þess vegna held ég að þegar við búum í slíku samfélagi sé enn mikilvægara fyrir okkur en e.t.v. mörg önnur samfélög — og þó, við erum kannski ekki sérstakari en öll önnur samfélög, þau búa við ýmsar ytri aðstæður sem geta orðið til þess að það verða óvænt skakkaföll — en þess þá heldur er mikilvægt að gæta þess að það sé borð fyrir báru. Það verður að segjast alveg eins og er að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur útgjaldaboginn verið spenntur býsna hátt. Það má eiginlega segja að menn hafi meira og minna keppst við að eyða hverri krónu og það kann ekki góðri lukku að stýra.

Við þekkjum það líka af biturri reynslu að það eru öldutoppar og öldudalir. Vissulega er rætt um núna að við séum að mörgu leyti betur í stakk búin en oft áður og samdráttur í hagkerfinu verði kannski ekki eins hastarlegur og hefði orðið hér fyrr á tíð. En engu að síður er mjög mikilvægt að við horfum alltaf til þess að fara varlega. Þegar menn vilja spenna bogann hátt og auka rekstrarútgjöld ríkisins svo mikið sem raun ber vitni verður samdráttur erfiður þegar þarf að fara að skera niður í rekstri ríkisins. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Þess vegna eru það viss vonbrigði, eins og ég nefndi hér í upphafi, að við virðumst færast í það minnsta of hægt að því að geta sagt við okkur sjálf: Við erum að ná tökum á hinu nýja fyrirkomulagi sem lög um opinber fjármál gera ráð fyrir. Við erum enn á sömu slóðum að mörgu leyti. Við söfnum upp í fjáraukalög. Eitt meginmarkmiðið var að reyna að útiloka það og auðvitað verður það aldrei hægt að fullu. Það vitum við. Það verða alltaf óvænt áföll. En við erum líka með nýtt fyrirkomulag sem varðar varasjóði og varasjóðir gegna nefnilega einmitt því hlutverki að vera til vara. Það á bara að grípa til þeirra ef brýn nauðsyn krefur. Reyndin hefur hins vegar kannski orðið í fullmiklum mæli sú að menn draga á þessa varasjóði, ekki endilega vegna þess að eitthvað óvænt hafi gerst heldur miklu frekar eru teknar ákvarðanir sem fela í sér aukin útgjöld sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum. Það er ekki gott. Við þurfum einfaldlega meiri aga í öllum þessum málum.

Það er ekki þannig, eins og hér hefur áður komið fram í mínu máli, að ekki hafi verið varað við þessu og bent á þetta af margvíslegum sérfræðingum sem um þessi mál fjalla. Ég vona að það komi ekki til þess að ári að við munum aftur upplifa það að ræða sömu málin með sama hætti, að enn sé gengið á varasjóðina, ekki endilega í samræmi við tilganginn, að enn hafi boginn verið spenntur of hátt, að enn hafi menn ekki tekið mark á því að efnahagshorfur og efnahagsástand fara ekki alltaf á besta veg. Ég vona að öll þessi umræða leiði þó smátt og smátt til þess — eða ekkert smátt og smátt, ég vona svo sannarlega að hún dugi til þess — að við þurfum ekki að fara enn einu sinni yfir þetta, að í það minnsta næst þegar við verðum á þessum árstíma í þinginu þurfum við ekki enn og aftur að fara með sömu ræðurnar og gera sömu athugasemdirnar og við gerum nú. Ég vona svo sannarlega að það verði ekki.