150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[23:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að það kann að vera vegna þess að það er orðið örlítið áliðið en ég sá það bara um leið og hv. þingmaður fór að spyrja mig út í vonir mínar og ég sé það í hendi mér núna að þarna var ég eiginlega nánast kominn tvö ár fram í tímann og ég tek alveg hjartanlega undir með hv. þingmanni. Miðað við fjárlögin og þetta frumvarp núna held ég að hv. þingmaður hafi nefnilega hárrétt fyrir sér, við munum einmitt standa í sömu sporum. Ég sé það bara þegar ég hugsa um það, ég var kannski kominn í næsta hring. Við erum nýbúin að samþykkja fjárlög. Þau eru nákvæmlega sama marki brennd og fjárlögin þar á undan, þau ríma ekki. Það er bara þannig. Auðvitað þarf alltaf að vera jafnvægi milli tekna og útgjalda. Ég óttast að á mörgum sviðum sé búið að auka þannig við rekstrarútgjöld ríkisins að það verði afar erfitt að efna þau loforð öll. Á sama tíma er alveg ljóst að það eru samt sem áður stórir þættir í verkefnum ríkisins sem þarf að fjármagna. En þá verða menn að beita öðrum ráðum til að geta gert það. (Forseti hringir.) Við vitum að það eru til nokkrar leiðir til þess en þeim er ekki beitt.