150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[23:06]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur kærlega fyrir. Ég held að þetta sé einmitt mjög góður punktur og ég held líka að það sé meira áberandi en oft áður hvað, eins og hv. þingmaður orðaði það, ráðherraræðið er orðið mikið. Það vekur líka vissa athygli að ráðherraræðið er orðið svo mikið að ráðherrarnir keppast hver við annan um að taka verkefni til sín af borði samráðherra sinna. Það er að verða mjög áberandi. En það var nú kannski ekki það sem hv. þingmaður var að spyrja um. Ég held einmitt að þetta sé ekki gott mál og þetta veldur auðvitað sérstaklega miklum vonbrigðum vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú situr lagði á það mikla áherslu, svo mikla að hún lét stjórnarsáttmálann hverfast um það, að auka veg og virðingu Alþingis. Hún lagði sérstaka áherslu á að hafa mikið og gott samráð við Alþingi. En reynslan hefur því miður orðið eiginlega þveröfug, sem er auðvitað grátlegt. Því að þó að maður hafi kannski ekki verið neinn sérstakur aðdáandi ríkisstjórnarinnar þegar hún var sett saman fannst manni einhvern veginn að það væri þó verið að gera tilraun til að slá þarna nýjan tón með því að gera þetta með þessum hætti. En efndirnar og framgangan gefur ekki von um að ríkisstjórnin taki (Forseti hringir.) nokkurt einasta mark á þessum stjórnarsáttmála sínum í þessu tilliti.