150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[23:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum fjáraukalög eða frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2019. Minni hluti fjárlaganefndar skilaði sameiginlegu nefndaráliti þar sem tillögur meiri hlutans eru gagnrýndar og hvernig varasjóðir eru notaðir, svo dæmi séu tekin, og áætlunargerðin hreinlega gagnrýnd. Mig langar áður en lengra er haldið að rifja aðeins upp hver grunngildin eru undir lögin um opinber fjármál. Hvað er það sem stjórnvöldum er ætlað að láta vera sem rauðan þráð í gegnum allar sínar ákvarðanir í gegnum fjármálastefnuna, í gegnum fjármálaáætlunina og síðan fjárlögin og framkvæmd fjárlaga. Þetta eru fimm gildi sem öll eru jafn mikilvæg og hafa jafn mikið vægi undir þessi stóru grundvallarplögg sem starfsemi ríkisins byggir síðan á.

Stefnumörkunin á að byggja á eftirtöldum grunngildum, með leyfi forseta, og finna má þau í 6. gr. laga um opinber fjármál. Í fyrsta lagi er það sjálfbærni sem felst í því að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir. Sjálfbærni hefur ákveðna merkingu og hefur efnahagslega merkingu en líka samfélagslega og umhverfislega þannig að taka þarf tillit til allra þessara þriggja þátta sem snúa að því hugtaki. Sjálfbærni felst ekki bara í því að skuldsetningin verði ekki stórkostleg þannig að byrðar leggist á komandi kynslóðir heldur eru það aðrar ákvarðanir líka, svo sem í umhverfismálum.

Annað grunngildið sem talið er upp í 6. gr. laganna er varfærni sem miðar að hæfilegu jafnvægi á milli tekna og gjalda, og að ekki séu teknar ákvarðanir eða aðstæður skapaðar sem geta haft ófyrirséðar og neikvæðar afleiðingar. Það þarf að fara varlega og stjórnvöld þurfa að gera ráð fyrir því að borð sé fyrir báru. Það getur eitthvað komið upp á og gera þarf ráð fyrir því að mögulegt sé að taka á þeim ófyrirséða vanda.

Þriðja grunngildið er stöðugleiki sem felst í að stefna í opinberum fjármálum stuðli að jafnvægi í efnahagsmálum. Stöðugleiki skiptir auðvitað mjög miklu máli en hann þarf að vera fjárhagslegur þannig að við séum ekki að glíma við miklar sveiflur og sviptingar í fjármálum ríkisins en hann þarf líka að vera félagslegur. Það verður að vera félagslegur stöðugleiki í stað þess að láta ríkissjóð eða skuldir eða afgang af ríkissjóði taka niðursveiflur, eða láta velferðarkerfið taka niðursveiflur, það gengur ekki ef við viljum halda hér félagslegum stöðugleika.

Herra forseti. Á ég svona lítinn tíma eftir? Ég sá að klukkan var farin að blikka á mig. En ég held þá áfram þar sem frá var horfið. Ég var að ræða um þriðja gildið sem er stöðugleiki. Við þurfum þar að taka bæði til félagslegs stöðugleika og efnahagslegs stöðugleika.

Fjórða gildið er festa sem felst í því að forðast óvæntar eða fyrirvaralitlar breytingar frá gildandi stefnu og áætlunum um þróun opinberra fjármála. Við Íslendingar eigum svolítið erfitt með þetta. Við eigum erfitt með að gera áætlanir langt fram í tímann. Við erum iðulega að breyta áætlunum eftir nokkrar vikur eða mánuði eftir því hvernig vindurinn blæs. Ein af ástæðunum fyrir því að ekki er svo mikil festa í okkar umhverfi er örmyntin, krónan okkar, sem er pínulítill sjálfstæður gjaldmiðill sem sveiflast mikið. Það hefur verið ein skýringin á því að við eigum erfitt með að hugsa fram í tímann af því að við vitum ekki alveg hvernig staðan á krónunni verður mánuð fyrir mánuð. En í þeim lögum sem við settum okkur sjálf, sem við settum kringum opinber fjármál, er einmitt gert ráð fyrir að við horfum fram í tímann, gerum áætlanir, vöndum okkur við þær og höldum okkur við þær.

Fimmta og síðasta gildið sem er undir alla stefnumörkun í fjárreiðum ríkisins er gagnsæi sem felst í því að sett séu auðsæ og mælanleg markmið til meðallangs tíma um þróun opinberra fjármála í samræmi við hin grunngildin.

Þetta eru gildin sem eru undir fjármálastefnunni, fjármálaáætluninni undir fjárlög og eru einstaklega mikilvæg og áttu að verða til þess að við breyttum um kúrs. Af því að við erum núna að tala um fjáraukalögin voru fjáraukalögin á árum áður nokkuð mikið vandamál vegna þess að það gerðist slag í slag að fjárlög voru vanáætluð en síðan var bara farið fram úr þeim, auðvitað. Kannski var ekki hægt annað. Eða upp komu einhver mál, pólitísk dægurmál, sem var síðan tekið á í fjáraukalögum. Ef við horfum aftur til baka til sögunnar mátti gera ráð fyrir að 5% af fjárlögunum bættust við eða útgjöldin ykjust um 5% með fjáraukalögunum, sem er náttúrlega mjög mikið. Þegar við skoðuðum þetta og reyndum að undirbyggja frumvarpið um opinber fjármál þá hugsuðum við með okkur: Ja, ef þetta er raunin, að alltaf komi eitthvað upp á hjá okkur sem við þykjumst ekki sjá fyrir þegar við erum að samþykkja fjárlögin, þá skulum við bara gera ráð fyrir því til að hafa í fjárlögunum eitthvert svigrúm fyrir það óvænta sem upp kann að koma. Þess vegna er í lögunum um opinber fjármál talað um stóran varasjóð sem gengur þvert á öll málasvið sem eiga að taka á því sem er algjörlega ófyrirséð. Það eru mjög ströng skilyrði í kringum stóra varasjóðinn. Það er ekki hægt að grípa til hans bara svona eftir hentugleika fjármálaráðherrans heldur þarf að vera rík ástæða fyrir því.

Í 24. gr. laganna um opinber fjármál er talað um óskiptan almennan varasjóð til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum um opinber fjármál. Varasjóðurinn skal nema að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga. En síðan er það ráðherra sem tekur ákvarðanir um ráðstöfun fjár úr varasjóði og gerir fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir nýtingu þess þegar ákvörðun liggur fyrir. Þetta eru ströng skilyrði. Hæstv. ráðherrar eiga ekki að leika sér með þennan varasjóð eða gera ráð fyrir því áður en fjárlagaárið byrjar að fara eigi í varasjóðinn. Hann á einungis að vera fyrir eitthvað sem við sjáum alls ekki fyrir núna. Það getur verið eldgos, það getur verið fárviðri eða hvaðeina sem veldur miklum skaða og líka fjárhagslegum og þá verði hægt að grípa í varasjóðinn til að koma því í lag.

En hitt er svo annað, þ.e. varasjóðir fyrir málaflokka. Það er hugsað meira þannig að ekki eru eins ströng skilyrði í kringum varasjóðina fyrir málaflokkana. Það er ákveðinn sveigjanleiki í rekstri málaflokkanna eða stofnananna sem starfa undir málaflokkunum til að ráðherra geti gripið til aðgerða án þess að koma með það sérstaklega inn í fjáraukalög. Ég nefni sem dæmi málaflokkinn sem varðar framhaldsskóla. Setjum svo að nemendum fjölgi þar, sem var ekki fyrirséð, þá er hægt að grípa í varasjóð málaflokksins ef hann er til. En nú er það svo að ráðuneytin hafa ekki sett upp varasjóði fyrir alla málaflokka. Þessi sveigjanleiki er því ekki alls staðar til staðar.

Herra forseti. Með lögum um opinber fjármál voru þrengd skilyrði til að leita aukinna fjárheimilda með fjáraukalögum. Hugmyndin var sú að áætlanirnar yrðu vandaðar og við vinnslu þeirra hefði verið tekið tillit til þessara fimm mikilvægu gilda sem eiga að liggja undir allri stefnunni, og þá þyrftum við ekki fjáraukalög sem væru að taka á svona málum hér og þar, eða að fjáraukalögin væru notuð til að lyfta undir einhverja stefnu eða það sem ríkisstjórninni hugnaðist hverju sinni, heldur ætti það allt saman að koma í stefnuplöggunum; í fjármálastefnu, fjármálaáætlun og svo fjárlögunum. En því miður er það svo, og af því að við erum nýbúin að afgreiða fjárlög er hún okkur í svo fersku minni gagnrýnin sem kom þar fram á tölurnar sem stjórnarmeirihlutinn samþykkti í fjárlögunum. Hægt er að nefna ýmis stór málasvið þar sem greinilega var ekki verið að setja nægilega fjármuni og augljóst að grípa þyrfti einhvern veginn til aðgerða á árinu 2020. Það er auðvitað nærtækast að tala þar um heilbrigðisstofnanirnar. Við þurfum ekki annað en að opna blöðin og vefmiðla til að sjá að þar er mikill vandi á ferðinni. Nú standa t.d. fyrir dyrum uppsagnir á Landspítalanum og spítalinn þarf að glíma við halla upp á 4 milljarða. Það er bara tekið af fjárheimildum næsta árs. Heilbrigðiskerfið sem átti að vera fremst á forgangslista hæstv. ríkisstjórnar er í miklum vanda þegar kjörtímabilið er hálfnað og það vottar ekki fyrir því að þar sé verið að gefa í eins og öllum var lofað og ritað er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er breytingartillaga sem er upp á 40 millj. kr. til heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, til heilsugæslunnar þar. Sagt er, ef ég skil þetta rétt, að þessar 40 milljónir hafi gleymst. Þær hefðu átt að koma í frumvarpinu en ekki sem breytingartillaga núna. Það má öllum vera ljóst að ákveðinn vandi er þegar kemur að ríkisstofnunum á Suðurnesjum. Þar hefur íbúum fjölgað á síðustu fimm árum um 30%. Fjárframlögin til stofnananna, ég tala nú ekki um heilbrigðisstofnanir, miðast við meðalfjölgun íbúa yfir allt árið. Það er ekki einu sinni horft á svæðið og gripið til ráðstafana þegar svona lagað gerist. Þegar eitthvað svona fordæmalaust gerist eiga yfirvöld auðvitað að beina sjónum sínum að þeirri fordæmalausu stöðu.

Síðan er það annað sem lengi hefur verið vitað að íbúasamsetningin á Suðurnesjum er líka sérstök og það kallar á ákveðinn kostnað sem er ekki annars staðar. Í Reykjanesbæ er fjórðungur íbúa af erlendu bergi brotinn. Það kallar á túlkaþjónustu og ýmislegt fleira. Þessi 30% fjölgun íbúa kallar auðvitað á aukna þjónustu, fólk veikist og slasast eins og á öðrum landsvæðum. En þjónustan bregst ekki við. Þetta vissum við. Þegar við samþykktum fjárlögin fyrir árið 2020 var okkur líka fullkunnugt um þetta. En ekki var brugðist við því. Við munum því sennilega standa í sömu sporum að ári liðnu með einhverjar milljónir til að bæta upp lélega áætlunargerð sem liggur undir fjárlagafrumvarpinu.

Herra forseti. Að lokum vil ég tala um það sem kallað hefur verið ráðherraræði og rætt var heilmikið um í rannsóknarskýrslu Alþingis, sem rædd var mikið í þinginu árið 2010. Þá var samþykkt þingsályktunartillaga þar sem allir 63 þingmennirnir voru sammála um að efla þyrfti þingið og styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þingið segir framkvæmdarvaldinu fyrir verkum en ekki framkvæmdarvaldið þinginu. Ég hef áhyggjur af því, forseti, að ráðherraræðið sé að aukast aftur. Það var auðvitað mjög mikið fyrir hrun og þingmönnum haldið svolítið utan við atburðarásina. Með umgengni hæstv. ríkisstjórnar við varasjóðina er verið að auka ráðherraræði. Þegar ráðherrar standa hér í pontu og segja: Já, já, það er alveg fyrirséð að hér verði einhver ákveðinn kostnaður. Og þá er nærtækast að tala um kostnaðinn sem fyrirséður er hjá embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra vegna Samherjaskjalanna. Þegar ráðherrar standa hér í pontu og segja: Við í ríkisstjórninni munum sjá til þess að embættin fái einhverja peninga. Við erum ekki búin að ákveða hvað við ætlum að vera rausnarleg hvað það varðar. Og halda í raun og veru að það séu ráðherrarnir sem fara með fjárveitingavaldið. En það er ekki svo, herra forseti. Það er þingið sem fer með fjárveitingavaldið.

Við þingmenn þurfum að vera mun ákveðnari við ráðherrana. Hv. þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, þurfa að taka höndum saman til að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hæstv. ráðherrar starfa í umboði þingsins og þingið á ekki að vera einhver afgreiðslustöð fyrir hæstv. ríkisstjórn. Ég læt það vera lokaorð mín um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2019.