150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[23:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðuna. Það er atriði sem hv. þingmaður kom inn á nokkrum sinnum í ræðunni sem snýr beint að lögum um opinber fjármál og framkvæmd þeirra og ég mun koma að einhverju marki inn á svipaða þætti í ræðu minni á eftir. Mig langar að spyrja hv. þingmann, verandi fyrrverandi fjármálaráðherra, hvernig henni þyki hafa tekist til við úrvinnslu og framkvæmd laga um opinber fjármál sem voru sett árið 2015. Nú erum við sennilega í fjórða hringnum, ef svo má segja, á grundvelli þeirra laga og enn sýnist manni vera töluverður byrjendabragur á ýmsu sem þarna er undir og þá sérstaklega að því er snýr að varasjóðunum og hvernig þingið er upplýst um notkun þeirra.

Hvað stóru myndina varðar langar mig að spyrja hv. þingmann hver upplifun hennar er af því hvernig til hefur tekist og hvort hún sjái fyrir sér að skynsamlegt sé að gera breytingar eða fara í úttekt á því hvernig staðið hefur verið að framkvæmd laganna og hvort það blasi við skynsamlegar breytingar sem hægt væri að ganga til innan ekki langs tíma.