150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[10:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings fyrir árið 2018 fyrir hönd meiri hluta fjárlaganefndar. Ríkisreikningur var lengi vel ekki staðfestur með beinum hætti af Alþingi heldur óbeint, ef svo má segja, með samþykkt lokafjárlaga þar sem veittar voru heimildir til að færa rekstrarafgang og umframgjöld á milli ára fyrir einstaka ríkisaðila. Lög um staðfestingu ríkisreiknings tóku síðan við af lokafjárlögum í fyrsta sinn fyrir árið 2017 og byggist sú breyting á lögum um opinber fjármál. Frumvarpið eins og það liggur fyrir er þess vegna einfaldara en oft áður og einfaldara en það frumvarp sem lá fyrir vegna ríkisreiknings 2017. Það innihélt stofnefnahagsreikning ríkissjóðs 1. janúar 2017 og þar þurfti að vekja sérstaklega athygli á ýmsum færslum honum tengdum. Nú felst frumvarpið hins vegar eingöngu í því, og er einfalt að því leyti, að vísa til útgefins reiknings í heild sinni og óska eftir því að reikningurinn sé staðfestur af Alþingi.

Ríkisendurskoðandi hefur endurskoðað reikninginn samkvæmt lögum nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, og í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla fyrir opinbera aðila. Ríkisendurskoðandi hefur jafnframt áritað reikninginn, án fyrirvara, með vísan til þess að ráðherra og fjársýslustjóri telja að innleiðingunni verði að fullu lokið í árslok 2019. Þá er það álit ríkisendurskoðanda að reikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu ríkissjóðs í árslok 2018, afkomu ársins og breytingu á handbæru fé í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015.

Ég ætla bara að vísa í nefndarálit, virðulegur forseti, um reikningsskilareglurnar. Það er fyrirhugað að innleiðingartímanum ljúki 2019 en í fyrsta skipti er sérstakt yfirlit að beiðni fjárlaganefndar í ríkisreikningi sem er mjög athyglisvert og ég ætla að vekja athygli á, séryfirlit nr. 9, þar sem er ágætisgreining, samanburðargreining, á því hvernig afkoman er á GFS-hagskýrslustaðli eins og 1. gr. fjárlaga er. Þar gefst færi á að bera saman afkomuna við afkomuna eins og hún er í fjárlögum. Tölurnar geta orðið ólíkar eftir því hvaða liðir eru þar inni. Þetta yfirlit gefur mjög skýra mynd og færi á þessum samanburði sem er vel.

Varðandi niðurstöðutölur ríkisreiknings 2018 er rekstrarafkoman jákvæð um 84 milljarða kr. Tekjur námu 850 milljörðum kr. og heildargjöldin 856,7 milljörðum kr. en jákvæð hækkun hlutdeildar í afkomu félaga og samrekstrar var 91,4 milljarðar kr. og færist til tekna. Eignir ríkissjóðs voru samtals metnar á 2.224 milljarða kr., skuldir og skuldbindingar nema 1.610 milljörðum kr. og eigið fé er því jákvætt um 613 milljarða kr. Það er hækkun um 117 milljarða kr. á milli ára. Eins og þarna kemur fram, og ef við skoðum þessar tölur, er staða ríkissjóðs afar sterk.

Hér eru að venju ábendingar frá meiri hluta fjárlaganefndar og fjárlaganefnd var með ábendingar við ríkisreikning 2017 sem hefur verið brugðist við eins og ég vakti athygli á í sambandi við yfirlit í ríkisreikningi, en ég vil draga það fram frekar að það kom fram á fundum nefndarinnar að framvegis væri stefnt að því að frumvarpið eins og það liggur fyrir verði tilbúið um leið og Alþingi kemur saman að hausti. Ég held að það væri mjög til bóta, virðulegi forseti, að frumvarpið kæmi fyrr fram og lægi jafnvel fyrir eins og fjárlagafrumvarp þegar þing kemur saman að hausti. Nefndin mun örugglega fylgja því eftir að svo geti orðið.

Meiri hlutinn ítrekar jafnframt ábendingar nefndarinnar frá því í fyrra um nauðsyn þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið gefi út reglugerð um flutning fjárheimilda milli ára áður en kemur að samþykkt ríkisreiknings. Meiri hlutinn telur að heildstætt yfirlit um uppruna fjárheimilda, ráðstöfun ársins, heildarniðurstöðu, niðurfellingar og fluttar fjárheimildir milli ára fyrir málaflokka væri mjög gagnlegt og yfirferð á því yfirliti ætti að eiga sér stað áður en kemur að frumvarpi um staðfestingu ríkisreiknings hverju sinni. Ég held að þetta væri, í öllu fjárlagaferlinu, mjög til bóta og gagnlegt fyrir þingið með sitt verklag.

Það kemur út mjög vegleg endurskoðunarskýrsla með ríkisreikningi og mikilvægt að hún komi jafnframt svona hratt í kjölfarið. Þar eru mjög gagnlegar upplýsingar fyrir alla sem vilja kynna sér það og mjög gagnlegar fyrir fjárlaganefnd. Fjárlaganefnd hefur oft tekið þá skýrslu til sérstakrar athugunar og yfirferðar og ég reikna með því að við gerum það nú. Endurskoðunarskýrsla ríkisendurskoðanda fyrir árið 2018 liggur fyrir og þar er gerð grein fyrir endurskoðun á ríkisreikningi en segja má að skýrslan standi algjörlega fyrir sínu óháð sjálfum ríkisreikningnum.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og Alþingi staðfesti þar með frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2018. Undir þetta álit rita eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Inga Sæland, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Þórarinsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson og Steinunn Þóra Árnadóttir.