150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[10:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir framsöguna. Ég vil koma stuttlega inn í þessa umræðu.

Fyrir liggur að fjárlaganefnd vill samþykkja ríkisreikning fyrir 2018 áður en hún hefur haft tækifæri til að greina endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar. Eins og kunnugt er sendi stofnunin inn leiðréttingu á endurskoðunarskýrslunni í kaflanum um gjöld ársins í kjölfarið á frumskoðun nefndarinnar á skýrslunni. Auk þess á nefndin eftir að greina ríkisreikning á sjálfstæðan hátt. Í sjálfu sér, herra forseti, vil ég segja að ótækt er að ríkisreikningur sé samþykktur áður en vinna af því tagi fari fram. Ég legg því áherslu á að hún verði unnin hið fyrsta, við fyrsta tækifæri, og fjárlaganefnd gefi út álit á hvoru tveggja í formlegri skýrslu sem lögð verði fyrir þingið og rædd hér. Ég veit ekki betur en að formaðurinn og aðrir nefndarmenn séu mér sammála í þessu.

Þetta mikilvæga mál kemur í hendur þingsins í miðri fjárlagavinnu og enginn tími til að kynna sér það nægilega vel svo hægt sé að greiða atkvæði að mínum dómi. Það má spyrja sem dæmi: Veit einhver hér hvað þarf að greiða árlega inn á skuldbindingar ríkissjóðs vegna B-deildar LSR þannig að sjóðurinn standi undir sér? Í fjárlögum eru það 7–8 milljarðar kr. Við mínar fyrstu athuganir held ég að þessi tala þurfi að vera mun hærri, enda er á það í raun og veru fallist á bls. 21 í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings. Og það þarf skynsamleg svör við því hvers vegna ríkisreikningur er ekki birtur og frágenginn á svipuðum tíma og hjá stærstu hlutafélögum og fyrirtækjum landsins, þ.e. í febrúar eða mars. Það væri í raun og veru eðlilegt.

Ég tel því að ekki sé annað hægt, herra forseti, en að sitja hjá við afgreiðslu málsins vegna þess að ekki hefur unnist tími til að fara ofan í saumana á reikningnum. Það felur í sér mjög umfangsmikla vinnu sem þingið hefur ekki haft nægilegan tíma til að fara í.