150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[10:56]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vera svolítið hvass í minni gagnrýni. Hv. þingmaður segir að hún hefði gjarnan viljað sleppa þessum niðurskurði. Það var nú hægur leikur að sleppa honum. Við í Samfylkingunni vorum með breytingartillögu um að sleppa einmitt niðurskurði á endurgreiðslum í kvikmyndagerð. Hv. þingmaður felldi þá breytingartillögu. Hv. þingmaður er væntanlega með sjálfstæðan vilja og hefði vel getað stutt þá breytingartillögu sem Samfylkingin lagði fram þegar fjárlögin voru afgreidd, tillögu um að endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar myndi ekki lenda í 30% niðurskurði. Verkin þurfa að tala. Það er svolítið holur hljómur í því þegar þingmaður kemur í pontu og dásamar þennan geira og talar um mikilvægi þess að hafa endurgreiðslufyrirkomulag því að á sama tíma er ekki nóg með að hv. þingmaður standi að fjárlögum sem gera ráð fyrir 30% niðurskurði heldur ýtir hún beinlínis á nei-hnappinn og fellir tillögu sem einmitt lýtur að því að draga þennan niðurskurð til baka.

Varðandi fyrirkomulagið í heild sinni við þetta kerfi hafa bæði sjónvarpsgeirinn og kvikmyndageirinn einmitt talað um að þetta fyrirkomulag, þessi löggjöf um að það sé hægt að endurgreiða hluta af kostnaðinum, sé gríðarlega mikilvægt fyrir þennan geira. Þetta er geiri sem beinlínis býr til peninga fyrir ríkið. Hann hefur laðað til landsins fjölmörg erlend verkefni sem síðan hafa búið til aukin umsvif sem í eðli sínu búa til skatttekjur sem renna eðli málsins samkvæmt í ríkiskassann. Það er klassískt dæmi um ótrúlega skammsýni þessarar ríkisstjórnar og hv. þingmanns — og ég ætla að vera svolítið hvass — að telja að það sé skynsamlegt að skera þarna niður, (Forseti hringir.) skera niður endurgreiðslur til kvikmyndagerðar um 30%. Þetta er hneyksli og þetta er blaut tuska framan í kvikmyndagerð og sjónvarpsgerð á Íslandi.