150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

1tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[10:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég verð að segja að ég held að þetta sé engin blaut tuska. Það er enginn tvískinnungur að dásama þessa atvinnugrein og vilja leggja henni lið þrátt fyrir að það hafi verið hægt að sýna fram á hagræðingu hjá sjóðnum og gera breytingar í úthlutun. Þó að hv. þingmaður hafi nú meiri þingreynslu en ég hef ég ansi langa reynslu í pólitík. Ég hygg, virðulegur forseti, að við vitum það öll hér inni að það að koma með tillögu við í kringum fjárlögin, eina staka tillögu, og ætlast til þess að þingmenn greiði atkvæði með henni gengur auðvitað ekki upp og er ákveðið leikrit til að kalla fram ákveðin viðbrögð. Fjárlögin standa sem heill pakki og það er ekki hægt að taka eitthvað eitt út og greiða atkvæði með því óháð öðru. Þetta stendur allt saman bæði með því hvernig tekjunum og gjöldunum er varið.

Ég og hv. þingmaður deilum ekki sömu sýn á það hvernig fjárhagur ríkisins eigi að vera rekinn miðað við þær löngu og ítarlegu ræður sem hv. þingmaður hélt í kringum fjárlögin. Ég er til að mynda á þeirri skoðun að fjárlögin okkar séu býsna góð og tali mjög vel inn í það efnahagsástand sem nú er. Við sjáum það á öllum viðmiðum. Við sjáum að matsfyrirtæki hækka lánshæfismatið okkar. Þau meta efnahagshorfur góðar. Horft er til Íslands og íslenska undursins, hvernig við komumst upp úr þessari miklu kreppu sem við vorum í. Þannig að ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, fyrir hv. þingmanni að ég held að hér séum við í mjög góðum málum þótt ég hefði persónulega gjarnan viljað sjá þennan ákveðna þátt með öðrum hætti. En þá verður auðvitað að útfæra það til hlítar og ég ætla að treysta þeim sem störfuðu í starfshópnum og lögðu til þessar breytingar fyrir því að þær verði til bóta á endanum fyrir greinina og að við sjáum áfram kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð á Íslandi blómstra.