150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[11:01]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni að þetta frumvarp skuli vera komið til 2. umr. í þingsal, frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Þetta frumvarp er endurflutt, það var flutt fyrst á 149. þingi, og flutningsmenn eru, eins og fram hefur komið, fulltrúar í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins en 1. flutningsmaður er hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sem hefur haldið utan um málið af mikilli einurð og einbeitingu. Það er ástæða til að þakka henni sérstaklega fyrir það.

Markmið laganna frá árinu 1999 var upphaflega að styrkja innlenda kvikmyndagerð með því að endurgreiða tiltekið hlutfall framleiðslukostnaðar sem til félli hér á landi. Með þessu átti að gera Ísland að fýsilegri kosti til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis auk heimildarmynda og laða að kvikmyndagerðarfólk og það hefur tekist svo sannarlega með aðdáunarverðum og glæsilegum árangri. Að svo mörgu leyti hafa orðið straumhvörf í þessari grein. Endurgreiðslur hafa staðið innlendum og erlendum aðilum til boða ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði sem bundin eru í lög. Eins og fram hefur komið eru þetta lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi en endurgreiðslur vegna kvikmynda og sjónvarpsefnis teljast ríkisstyrkur og eru þar af leiðandi hugsaðar sem tímabundið stjórntæki. Þegar lögin urðu til árið 1999 eða þar um bil steyttu menn á einhverjum í skerjum því að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, gerði athugasemdir og gerðar voru breytingar á lögunum til samræmis við okkar lagaumhverfi sem við lútum. Þetta tímabundna kerfi hefur verið framlengt fjórum sinnum og næst þarf að endurnýja það 2021. Það er sem sagt í gildi til ársloka 2021. Frá því að lögin tóku gildi hefur verið svolítið breytilegt hvert endurgreiðsluhlutfallið hefur verið. Til að byrja með var það 14%, var komið í 25% en hefur á þessu árabili verið nokkur breytilegt.

Eins og komið hefur fram er á grundvelli þessara laga hægt að fá endurgreidd 25% af framleiðslukostnaði vegna framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis frá Íslandi. Hafi meira en 80% af þessum framleiðslukostnaði fallið til hérlendis eru jafnframt endurgreidd 20% af þeim framleiðslukostnaði sem til fellur á hinu Evrópska efnahagssvæði sem er þýðingarmikið atriði í þessu samhengi sem við tölum um núna.

Virðulegur forseti. Í október sl. skilaði Ríkisendurskoðun ágætri skýrslu, Endurgreiðslukerfi kvikmynda, þar sem fram koma ýmsar tillögur um úrbætur og staðgóðar tölulegar upplýsingar. Ríkisendurskoðun kemur þar m.a. með tillögu til úrbóta í fjórum liðum. Í skýrslunni kemur fram að á árabilinu 2001–2018 hefur verið endurgreiddur um 9,1 milljarður kr. vegna kvikmyndagerðar, tæplega 4,5 milljarðar til innlendra verkefna og rúmlega 4,6 milljarðar til erlendra, samtals 257 verkefni á árabilinu 2013–2018, 84 kvikmyndaverkefni, 115 verkefni á sviði sjónvarpsefnis og 58 heimildarmyndir. Þetta er stórkostlegt atriði og stórkostlegt innlegg í íslenska menningarstarfsemi og eiginlega hátæknivæddan geira. Það má segja að á þessu árabili hafi orðið samfelld aukning á þessari endurgreiðslu vegna íslenskrar kvikmyndagerðar sem tók sérstakan kipp árið 2011 og hefur vaxið jafnt og þétt síðan.

Þó eru blikur á lofti. Eins og fram kom í andsvari áðan er nú verulegur niðurskurður til þessa málaflokks sem er áhyggjuefni og því þarf að snúa við sem fyrst því að þetta er mikilvægt atriði. Eins og fram kom í andsvari hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar er þetta geiri sem leiðir svo margt af sér, býr til tækifæri, þekkingu og möguleika fyrir ungt fólk. Vinsældir Íslands eru alltaf að aukast og árin 2014 og 2016 nam þessi endurgreiðsla yfir 1 milljarði hvort árið. Það eru topparnir. Þeir sem starfa í þessum geira, við heimildarmyndagerð, kvikmyndagerð og gerð ýmislegs sjónvarpsefnis, telja að endurgreiðslukerfið sé auðvitað afar mikilvægt og hafi verið eins og vítamínsprauta fyrir kvikmyndagerð og kvikmyndalist á Íslandi. Þetta er listform og ávinningurinn fyrir samfélagið er gríðarlega mikill. Við erum bæði að eignast fólk sem kann til verka við handritagerð í auknum mæli og við erum farin að framleiða vandað sjónvarps- og kvikmyndaefni sem nýtur viðurkenningar um allan heim. Það á við um handritsgerð, kvikmyndatöku og auðvitað tjáninguna, túlkunina, leikinn í þessum myndum. Þetta er allt saman ferli og skóli sem tekur tíma að ná tökum á og við erum að ná þarna aðdáunarverðum árangri. Því er ekki að neita að aðrar listgreinar eru farnar að horfa til sambærilegrar fyrirgreiðslu, eins og t.d. á sviði tónlistar.

Eins og ég nefndi eru aukin umsvif sem byggst hafa upp varðandi þekkingu og reynslu í þessum geira. Þegar stór verkefni berast til landsins gefst tækifæri til að tækjavæða þessa grein, bæði með þekkingu og tækni, og við erum hugsanlega að eignast stórt kvikmyndaver á Íslandi sem er kannski fyrst og fremst því að þakka að við höfum greitt götu þessarar greinar sem er hátæknivædd, eins og ég nefndi, hún er fersk og lifandi og höfðar vel til ungs fólks sem stöðugt leitar fjölbreytilegra menntunarkosta. Þeir gefast bæði hér heima orðið og erlendis.

Eins og fram hefur komið, virðulegur forseti, er kvikmyndagerð ung listgrein á Íslandi og það á ekki síður við um frændþjóðir okkar og vini í Færeyjum og á Grænlandi þar sem er mikill og vaxandi áhugi og frjór jarðvegur fyrir þessa grein. Þetta er atvinnugrein í vexti sem við ættum að styðja við með ráðum og dáð og þegar grannt er skoðað er þetta auðvitað mikið hagsmunaatriði fyrir okkur líka, að við getum miðlað af þekkingu okkar og reynslu, veitt henni þjónustu og haft af því mikinn hag.

Því er óhætt að halda fram með Færeyjar og Grænland að þetta séu yngstu kvikmyndaþjóðir Norðurlanda. Fyrsta alvöru færeyska, leikna kvikmyndin sem gerð var heitir Atlantic Rhapsody og hún var gerð árið 1989. Það var meira að segja færeyskur kvenleikstjóri sem stjórnaði henni. Ný kynslóð af færeysku kvikmyndagerðarfólki sem og aukinn áhugi erlendra aðila á Færeyjum sem tökuvettvangi hvatti Færeyinga til að setja á laggirnar kvikmyndamiðstöð, Filmshúsið, sem er ætlað að fjárfesta í innlendri kvikmyndagerð, efla erlenda fjárfestingu í kvikmyndum og markaðssetja Færeyjar sem vettvang kvikmyndagerðar. Færeyingar hafa varið töluverðum fjármunum í þetta verkefni. Eins og við vitum eru íbúar í Færeyjum ekki margir, þeir eru 50.000. Þar er að finna eitt framleiðslufyrirtæki í kvikmyndagerð og eina sjónvarpsstöð, auk fræðslumiðstöðvar í kvikmyndagerð, Klippfisk. Það er hugur í frændum okkar sem vinna að því fullum fetum að styrkja innviðina og stuðla að sjálfbærni í færeyskri kvikmyndagerð. Því er það ánægjuefni að við skulum taka þessu svona vel, að gefa Færeyingum hugsanlega kost á því að vera undir þessum hatti með okkur.

Grænland á sér heldur ekki langa kvikmyndasögu. Fyrsta leikna grænlenska kvikmyndin var gerð árið 2009. Landið hefur þó lengi verið, og sjálfsagt lengstan hluta kvikmyndasögunnar, vettvangur fyrir könnunarleiðangra og myndatökuleiðangra á stórkostlegri náttúru. Þar hafa verið gerðar vísinda- og náttúrulífsmyndir en þetta með kvikmyndagerð sem listform er líka stöðugt að verða vinsælla á Grænlandi. Þar er kjarni af innlendum aðilum sem er að takast á við það að annast leikstjórn og framleiðslu kvikmynda. Fyrst árið 1979 stjórnuðu Grænlendingar og framleiddu sína eigin mynd. Síðan hafa menn unnið að stuttmyndagerð á innlendum vettvangi á Grænlandi en þar er þessi þróun komin skammt á veg. Kvikmyndahátíðin Greenland Eyes er stærsti vettvangur grænlenskrar kvikmyndagerðar og kvikmynda um Grænland en hvorki Færeyingar né Grænlendingar eru aðilar að EES, eins og fram hefur komið, og því fæst kostnaður vegna kvikmyndagerðar á þessum vettvangi ekki endurgreiddur að neinu leyti. Komið hefur fram, m.a. hjá 1. flutningsmanni, að þetta hafi áhrif á forgangsröðun og staðsetningu verkefna hjá kvikmyndagerðarfólki, það er alveg ljóst.

Virðulegur forseti. Ef þetta frumvarp verður að lögum eru miklar væntingar um að breyting verði á að þessu leyti, enda er megintilgangur þessa sá að búa til hvata fyrir kvikmyndagerðarfólk til að ráðast í kvikmyndaverkefni á Grænlandi og í Færeyjum.

Herra forseti. Ég tel að það sé góður bragur á því að samþykkja breytingar á lögunum að þessu leyti. Má segja að þetta frumvarp hafi yfir sér gæsku, skynsemi og hagkvæmni sem allir aðilar munu njóta góðs af.