150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[11:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta ágæta mál sem hér er til umfjöllunar. Það er bara prýðilegt að útvíkka þetta fyrirkomulag til nágranna okkar. En það er auðvitað ekki hægt að ræða þessar endurgreiðslur öðruvísi en að minnast á þann niðurskurð sem stjórnvöld hafa staðið fyrir sem veldur gríðarlegum vonbrigðum og endurspeglar alveg ótrúlega mikla skammsýni. Það var ítrekað bent á að fyrir það fyrsta lægju fyrir fyrirheit sem væru langt umfram þær fjárveitingar sem væri verið að veita til málaflokksins varðandi endurgreiðslur og varað ítrekað við því af hálfu hagsmunaaðila að þetta gæti stórskaðað orðspor Íslands varðandi kvikmyndagerð hér á landi, hindrað að hingað kæmu stór erlend verkefni.

Í umræðu um áhrif þessa til að byggja áfram upp þessa mikilvægu atvinnugrein er auðvitað ekki hægt að líta fram hjá því að það er vegið stórlega að henni með áformum stjórnvalda. Það sem kemur manni svo ótrúlega á óvart í þeim áformum er að það hefur ítrekað verið bent á tengslin milli ferðaþjónustu og kvikmyndagerðar hér á landi. Í könnunum segir fimmtungur erlendra ferðamanna sem hingað koma að hugmyndin hafi kviknað vegna kvikmyndar eða þáttar sem unninn hafði verið hér á landi. Fallega náttúran okkar hafi einfaldlega kveikt áhuga á að koma og skoða landið betur. Á sama tíma og ferðaþjónustan er að glíma við samdrátt ákveðum við að skera niður í einni helstu markaðsleið, getum við sagt, ferðaþjónustunnar, í gegnum kvikmyndageirann. Þetta er ótrúleg skammsýni hjá ríkisstjórninni.

Þetta mál er hreint alveg ágætt en það verður auðvitað að endurreisa það fjármagn sem þarf til að standa undir endurgreiðslum til kvikmyndagerðar hér á landi ef við ætlum að nýta þetta áfram sem vænlegan kost, sem hann hefur svo sannarlega reynst vera. Það hefur einmitt byggst upp blómlegur iðnaður í kringum endurgreiðslufyrirkomulagið sem verið hefur. Ég endurtek: Þetta mál er ágætt en niðurskurðurinn er ríkisstjórninni til skammar.