150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[11:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Málið er bara fínt. Öll nefndin er á því. Þetta þýðir bara að endurgreiðsla af kostnaði vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, — 80% á Íslandi, 20% á EES-svæðinu — kemur til þarna líka. Nú er bara verið að bæta við með þessu frumvarpi Færeyjum og Grænlandi. Það er stutt í þessi lönd og ef menn eru að fara í þennan heimshluta til að taka kvikmyndir, þá eykur þetta líkurnar á að þeir velji þetta svæði. Þannig að málið er í eðli sínu bara fínt. Ég styð það.

Varðandi það að 20% þeirra sem koma til Íslands segi samkvæmt könnun, eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson nefndi, að þeir hafi ákveðið það eftir að hafa séð kvikmynd sem hafi verið tekin á Íslandi. Ég er kannski ekki endilega sammála þingmanninum, en jú, það er verið að skera niður endurgreiðslurnar og það er ekki gott fyrir greinina en þegar kemur að ferðaþjónustunni almennt á Íslandi hefur hún vaxið allt of hratt og umfram þá peninga sem hafa verið settir í þá innviði sem þurfa að vera til staðar svo við göngum ekki á landið. Þetta kom skýrt fram í skýrslu sem Samtök aðila í ferðaþjónustu báðu Capacent að gera, svona stöðugreiningu, áhættugreiningu. Þar kom m.a. fram að eitt af þeim stóru atriðum sem fela í sér áhættu á ofvexti í ferðaþjónustunni er að heimamönnum gæti fundist of mikill ágangur. Svo er náttúrlega ágangur á landið o.s.frv. Það hefur ekki verið sett nóg fjármagn í að byggja upp ferðaþjónustuna. Ég tala um þetta bara í ljósi þessa fimmtungs af þeim sem hingað koma. Við þurfum ekkert endilega að auka eftirspurn ferðamanna miðað við það ástand sem við höfum verið í. Svo við höldum því bara til haga.

En þetta mál eitt og sér er bara fínt, við bætum Grænlandi og Færeyingum inn í þá „púllíu“ sem er Evrópska efnahagssvæðið. Ef 80% er framleiðsla á Íslandi er endurgreiðsla til staðar og jafnframt 25% endurgreiðsla á því sem fellur til í EES og nú með samþykkt þessa frumvarps, á Grænlandi og í Færeyjum líka.