150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[11:38]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða breytingu á lögum um matvæli, mál nr. 318, og mig langar bara rétt að fylgja svolítið eftir orðum hv. þm. Ólafs Ísleifssonar af því að við erum báðir í atvinnuveganefnd. Þar sem sá sem hér stendur var ekki á svæðinu í gær og heldur ekki hv. þm. Ólafur Ísleifsson sat varamaður okkar, hv. þm. Þorgrímur Sigmundsson, fundinn og þar sem á honum kom fram breytingartillaga langar mig, líkt og hv. þm. Ólafur Ísleifsson talaði um, að lýsa yfir ánægju minni með þá breytingu að ekki verði af sameiningu AVS-sjóðs og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins að sinni. Kom það vel fram í minnihlutaáliti sem hér er til umfjöllunar og sérstaklega það að nefndinni hefði verið bent á að Framleiðnisjóður landbúnaðarins sinnti verkefnum sem féllu ekki undir skilgreint hlutverk Matvælasjóðs samkvæmt frumvarpinu. Var nefndinni jafnframt bent á að AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi hefði vægi langt umfram þá fjármuni sem hefðu verið lagðir í hann. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að Matvælasjóður verði samkeppnissjóður líkt og aðrir sjóðir þar sem umsóknir verði metnar á ýmsum forsendum, m.a. nýnæmi þeirra.

Þar af leiðandi telur minni hlutinn í þessu nefndaráliti að ekki hafi verið sýnt fram á nægjanleg rök til grundvallar því að sameina framangreinda tvo sjóði. Bendir minni hlutinn á að hlutverk sjóðanna hafi verið með ólíkum hætti hingað til og ekki hafi verið sýnt fram á að ávinningur verði af sameiningu þeirra. Telur minni hlutinn því ekki tilefni til að sameina sjóðina.

Þessu var síðan breytt í gær og fagnar því sá sem hér stendur. Það sýnir fram á að einstaka sinnum er þó tekið mark á minni hlutanum sem er afar ánægjulegt.

Síðan langar mig að minnast á það sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson nefndi í lokin í sambandi við heimaslátrun. Hef ég látið mig hana mikið varða í þeirri skoðun minni á eflingu landbúnaðarins, sérstaklega sauðfjárræktar, að styðja beri við sauðfjárbændur svo þeir geti verið sjálfstæðir og framleitt sitt kjöt og slátrað heima til að geta sýnt fram á rekjanleika og ferskleika matvörunnar frá upphafi og þangað til hún kemur á disk neytenda. Ég legg áherslu á að þingið og við stjórnmálamenn getum unnið að því að koma því þannig við að bændur nái að slátra heima hjá sér, að hin svokölluðu örsláturhús geti orðið að veruleika. Því fylgir núna svo gríðarlega mikið regluverk samkvæmt EES-samningnum að menn standa vart undir því. Í lok nefndarálitsins segjum við að fyrir nefndinni hafi komið fram ýmis sjónarmið varðandi heimaslátrun sem meiri hlutinn reifaði vel. Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum um að skoða þurfi regluverk um örsláturhús og heimaslátrun með tilliti til þess hvort unnt sé að auka svigrúm að einhverju leyti.

Auðvitað verður að gæta ýtrustu varúðar gagnvart hreinlæti og öðru slíku og ætlast menn ekki til neins annars, en regluverkið er það flókið og umfangsmikið að það þyrfti að einfalda. Að þessu sögðu ætla ég að láta gott heita.