150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[11:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Nefndin ræddi þetta mál fyrst á fundi sínum 5. nóvember, þ.e. breytingu á ýmsum lögum á sviði matvæla, einföldun regluverks, Matvælasjóð og EES-reglur. Í kjarnann er verið að innleiða reglugerð um matvæli eða undirbúa hana og á sama tíma taka saman alla lagabálka varðandi matvæli og setja í ein lög þannig að það sé, eins og ráðuneytið orðaði það, skýrt að allt sé á einum stað. Síðan átti líka að leggja niður Framleiðnisjóð landbúnaðarins og taka í staðinn upp Matvælasjóð. Við það hefur verið hætt, það er tekið út úr þessum pakka og mögulega verður unnið með það eitthvað áfram en það yrði þá sjálfstætt frumvarp í kjölfarið.

Það sem ég vildi vita um einföldun regluverksins og að þetta sé tekið saman í einn lagabálk er hvort allt úr þeim lögum sem felld eru út verði þá raunverulega sett inn í þennan nýjan lagabálk eða hvort eitthvað verði skilið eftir og líka hvort gengið verði nógu langt við innleiðinguna sem þarf að fara í eða kannski of langt. Göngum við nógu langt til að uppfylla skyldur okkar eða göngum við kannski of langt? Ráðuneytið svaraði því til að frumvarpið hefði verið unnið í nánu samstarfi við Matvælastofnun og það sé mjög öruggt með að ekki sé verið að gleyma neinu og engar athugasemdir hafi komið við vinnslu málsins um að svo væri.

Í kjarnann er verið að breyta tveimur lagabálkum. Um tilgang og gildissvið laga um matvæli segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur laganna er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Þessu skal ná með innra eftirliti, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og vara, varúðaraðgerðum, fræðslu, upplýsingamiðlun, rannsóknum, neytendavernd og opinberu eftirliti.“

Og svo er annar lagabálkur sem er verið að breyta, lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Í þeim lögum segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja svo sem kostur er öryggi og heilnæmi fóðurs og gæði áburðar og sáðvöru.“

Það sem þessir lagabálkar snúast um er að tryggja öryggi, matvælavernd og heilbrigði. Sjálfur vil ég líka að hægt sé að vera með fleiri örsláturhús. Allir tala um að ekki eigi að gefa afslátt af eftirlitinu o.s.frv. en síðan erum við að fylgja því eftirliti sem við eigum að fylgja og menn segja að það sé of mikið. Það gengur ekki. Það er ákveðinn staðall um hvað þurfi að vera og hann verður að ná yfir alla þannig að ef örsláturhús geta ekki rekið sig með því eftirliti sem tryggir það öryggi sem við ætlum að hafa samkvæmt okkar skuldbindingum verður að fara aðra leið. Það er hægt, ríkið getur með ríkisstuðningi stutt við það að örsláturhús geti starfað.

Nú erum við t.d. með mjög öfluga löggjöf varðandi vernd á dýrum og velferð dýra. Mér finnst það alveg eðlilegt en fyrst hún er umfram það sem EES-samningurinn segir og meira íþyngjandi fyrir búvöruframleiðendur er þar af leiðandi kominn ákveðinn samkeppnishalli fyrir íslenska búvöruframleiðendur og eðlilegt að ríkið styrki það. Alþingi setur lög um að svo og svo vel skuli fara með dýrin og það kostar og er íþyngjandi fyrir bændur. Fyrst það er umfram það sem aðrir sem eru að keppa á markaðnum þurfa að gera, þ.e. þeir sem eru að flytja inn erlendis frá, af EES-svæðinu, finnst mér að ríkið eigi að styrkja íslenska framleiðslu sem því nemur. Ég trúi að mjög margir vilji heimaslátrun og ef landsmenn vildu væri hægt að gera nákvæmlega það sama en þá þarf ríkið að bera þann kostnað til að þetta sé sambærilegt. Þá myndum við að vísu fara lengra en gert er í Evrópu. Mér finnst að ríkið eigi að bera þann kostnað ef það er vilji landsmanna að vera með heimaslátrun. Við ætlum ekki að fórna matvælaöryggi okkar en það er það sem við gerum ef við ætlum að segja: Hérna er staðallinn sem við erum búin að sammælast um en sumir þurfa ekkert að passa upp á hann því að þá getur öll heildin borið kostnaðinn.

Svo var verið að bera saman í nefndinni að ekki væri mikið eftirlit með fiski og að þar væru menn látnir sjá um sitt eftirlit sjálfir. Þar þarf ekki að koma neinn eftirlitsmaður og stimpla allt en málið er að fiskur er langt frá okkur í þróun. Við smitumst ekki af blóðsjúkdómum fiska en við getum smitast af t.d. nautgripum. Ástæðan fyrir því að eftirlitið var hert á sínum tíma er sú að menn smituðust af nautgripum. Þess vegna erum við að gera þetta. Við erum að gera þetta þannig að við höfum örugg matvæli. Allar samlíkingar með fisk og að ekki þurfi eftirlit með honum og þar af leiðandi þurfi minna eftirlit með alifuglum eða spendýrum ganga ekki upp líffræðilega.

Það kom fram í nefndinni að gæta þurfi jafnræðis varðandi öryggið eins og ég var búinn að nefna. Það kom einmitt upp í nefndinni að sumir voru ekki tilbúnir í að Framleiðnisjóður landbúnaðarins yrði lagður niður og tekinn upp Matvælasjóður þannig að því hefur verið frestað.

Annars er þetta frumvarp gott. Ég ætlaði að vera á gulu varðandi Framleiðnisjóð landbúnaðarins, þ.e. ef niðurlagningu hans hefði verið haldið til streitu ætlaði ég að sitja hjá. Ég gat ekki séð að þetta væri gott og margir aðilar, m.a. Samtök ferðaþjónustunnar, sögðu að þetta væri vafasamt og gæti sett ákveðin verkefni í uppnám þannig að það er ágætt að þessu sé frestað og það unnið betur. Samræming regluverksins í einn lagabálk um matvæli til að tryggja öryggi neytenda í samræmi við EES-reglur er hins vegar góð og ég mun styðja hana.