150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sem hér tók síðast til máls er ekki lengur framkvæmdastjóri hagsmunasamtakanna sem halda utan um atvinnulífið. Það að tala um framúrkeyrslu í opinberum fjármálum verður ekki borið saman við það að reka fyrirtæki sem hefur það markmið að skila afgangi. Við erum hér með allt önnur markmið. Við erum að horfa til þess að jafna út hagsveifluna. Við getum tekið á okkur halla þegar það hentar. Það er eðlileg niðurstaða við þær aðstæður sem eru uppi í samfélaginu núna að ríkið taki á sig halla til skamms tíma, enda notuðum við góðu árin til að skila miklum afgangi og borga upp skuldir. Þannig höfum við hagað opinberu fjármálunum og þegar spurt er hvernig okkur hafi tekist til á að spyrja um kaupmátt heimilanna, um verðbólgu, lánstraust ríkisins, hagvöxt, viðgang í atvinnulífinu o.s.frv. (Forseti hringir.) Það er nefnilega ekki eini mælikvarðinn hvorum megin við núllið ríkið skilar sér niður það árið. Við sumar aðstæður er það góð niðurstaða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)