150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um sovéskt fyrirbrigði en ég veit að sami hv. þingmaður hefur oft og mikið dásamað Evrópusambandið, sem er virkilega stórt og öflugt tollverndarbandalag. Við þurfum ekki að horfa til Sovétríkjanna í þeim efnum. Hv. þingmaður talar líka um bindingu til eilífðarnóns. Ég veit ekki hvað hann telur tvö ár vera langt tímabil en mér finnst það vera svona sæmilegt tímabil til að meta hlutina. Við erum að taka upp mjög breytt kerfi sem við þurfum virkilega að fylgjast með og hér er ekki verið að valda neinum skorti. Við sjáum alveg að það er hægt að flytja inn á fullum tollum. Til að mynda hafa tollar á kartöflum verið 60 kr. á kíló þessa öld þannig að við höfum verið að draga mjög úr allri tollvernd. Tollvernd er sá styrkur sem við notum til innlendrar framleiðslu. Vissulega væri hægt að taka upp annað styrkfyrirkomulag. En það er ekki til umræðu í þessu frumvarpi. Það hefur enginn svo sem mótmælt því að það er hægt að taka á stærri grunni þær umræður upp hvernig sé hægt að beita styrkjum til innlendrar framleiðslu. Við erum svo sem ekki að skera úr um það hvernig við viljum hafa styrki til innlendrar framleiðslu framvegis. Og ég held að það sé kominn tími til að taka virkilega upp viðræður um hvernig við viljum hafa þá og með hvaða hætti vegna þess að það er mikið ákall eftir því að styrkja innlenda framleiðslu.