150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:17]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Þingmaðurinn fór svo sem ágætlega yfir málið í svari sínu og nefndi m.a. tollabandalagið Evrópusambandið — það er alltaf tískuorð hjá andstæðingum Evrópusambandsaðildar, „tollabandalagið“ Evrópusambandið. Það vill hins vegar svo til, samkvæmt alþjóðlegum hagtölum sem birtar eru, að tollverndin okkar er miklum mun hærri en ytri tollvernd Evrópusambandsins. Værum við fullir aðilar að þeim góða félagsskap væru auðvitað viðskipti með landbúnaðarafurðir tollfrjálsar innan Evrópusambandsins, enda sjáum við að matvælaverð er þar talsvert lægra en hér. Í þessum sal og í hópi þingmanna stjórnarmeirihlutans hefur því m.a. verið mjög fagnað að Bretar séu nú á leiðinni út úr Evrópusambandinu og að það séu mörg tækifæri sem þar skapist og nýir fríverslunarsamningar, ekki hvað síst við Bandaríkin sem við höfum falast eftir, en þar er einmitt staðreyndin sú að í vaxandi mæli er farið fram á tollfrelsi landbúnaðarafurða. Bandaríkjamenn gera ekki lengur fríverslunarsamninga nema það sé fullt tollfrelsi landbúnaðarafurða á ferðinni. Það eru því vissulega mörg áhugaverð tækifæri í slíkum samningum á ferðinni.

Kjarni máls er kannski einmitt þessi, og mér sýnist nefnilega að í þetta skipti hafi meira að segja grænmetisbændur tekið undir þá gagnrýni og sagt: Það er ekki heppilegt, ekki heldur fyrir innlenda framleiðslu, að þessar miklu verðsveiflur séu í gangi eftir því hvort tollar séu á eða ekki þá stundina. Það sé miklu heppilegra fyrir langtímaeftirspurn eftir viðkomandi vörum að verðlag á þeim sé sem lægst og sveiflist hvað minnst. Gallinn á þessu fyrirkomulagi er auðvitað að við sjáum oft miklar verðsveiflur eftir því hvort tollkvótar eru í gildi eða ekki. Það er fagnaðarefni í þessu máli (Forseti hringir.) sérstaklega að hér er vissulega verið að auka við tollkvótana, þó svo að með nokkurri ólund sé og allt sé gert til þess að reyna að þrengja þar að eins og kostur er. En það væri auðvitað miklu heppilegra ef við værum með beinan stuðning við bændur. (Forseti hringir.) Neytendur nytu góðs af líka.