150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Einhvern veginn datt mér í hug þegar ég sá þetta frumvarp fyrst að ég væri nú loksins að sjá frumvarp sem færi af stað með svolítið róttækum hætti og opnaði verulega á tollkvóta fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum — en það var ekki. Það verður þó að segja að eins og málið var upphaflega lagt fram var það að mörgu leyti skref í rétta átt. Eins og áður hefur komið fyrir í málum hjá nefndinni virðist meiri hluti þingsins ekki vera tilbúinn til að fara í þær breytingar á landbúnaðarkerfinu sem við þurfum að fara í og horfast í augu við og við verðum að fara í til hagsbóta fyrir bændur, til hagsbóta fyrir neytendur og fyrir vöruþróun á sviði landbúnaðar. Ég held að það sé skaðlegt og ég er sannfærð um að það er skaðlegt fyrir bændur og neytendur að viðhalda því kerfi sem nú er.

Þetta frumvarp sem hér er og nefndarálitið, þegar maður horfir á það, minnir einmitt á ákveðið forræðishyggjukerfi. Þetta er kyrrstöðukerfi og það vita allir að kyrrstaðan er ekki til hins betra þegar menn þora ekki að fara í breytingar sem eru nauðsynlegar. Síðan fer atvinnuveganefnd í að setja þumal upp eða niður um hvað megi og hvað ekki og setur það fram með hefðbundnum hætti — það er rétt að draga fram að þetta er með hefðbundnum hætti — en þetta er gamaldags. Þetta er nálgun á landbúnaðinn eins og hún hefur verið á umliðnum 50–70 árum. Það kemur auðvitað ekki á óvart með þá ríkisstjórn sem nú er að hún þori ekki að breyta einu eða neinu af ótta við sérhagsmunaöfl.

Ég spyr líka í einfeldni minni: Fyrst menn eru að breyta, af hverju var ekki horft til gagnsæis í lagasetningu, gagnsæis fyrir neytendur? Nefndin leggur til eftirfarandi breytingu, með leyfi forseta:

„1. Vörur með tollskrárnúmerunum 0208.9003, 0208.9007, 0208.9008 …“

Og svo heldur þetta áfram. Hefði ekki verið í lófa lagið að hafa gagnsæi á hlutunum svo að neytendur og þeir sem eru að höndla með þetta þurfi ekki alltaf að fletta upp öllum tollskrárnúmerum? Þannig að við séum að nálgast árið 2020 en ekki 1920? Bara til að greina neytendum frá því hvaða sé verið að möndla með? Þetta er kannski útúrdúr en sýnir samt að það er hægt að gera þetta betur. Ég er ekki efnislega sammála þessu og hefði óskað að það hefði verið hægt að vinna þetta á nútímalegri hátt, fyrir utan allar þessar dagsetningar sem ég skil ekki. Það er einfaldlega auðvelt að leysa þetta.

Við í Viðreisn höfum talað fyrir því eindregið að við eigum frekar að opna fyrir tollana, afnema tolla á landbúnaðarvörum, gegn því að bændur fái viðhlítandi stuðning. Við sjáum það enn og aftur í ákveðnum vöruflokkum innan grænmetisins. Þar hefur þróunin verið jákvæð, ekki bara fyrir neytendur heldur hefur líka skapast fjölbreytni í störfum innan landbúnaðarins, innan grænmetisgeirans. Bara með fjölbreytni í vöruþróun eins og í tómataræktuninni þar sem við erum að sjá alls konar hluti gerast, fjölbreytni í afurðum úr íslenskum tómötum. Allt gerir þetta líka atvinnugreinina meira spennandi, meira aðlaðandi. Það kemur inn ungt fólk og það verður meiri nýsköpun og fleiri sprotar sem skapast. Þetta er svo gott dæmi um að þegar við afnemum tolla og förum í beina styrki eins og við gerðum á sínum tíma — það kostaði sitt — er það til hagsbóta fyrir alla. Það er hægt að styrkja landbúnaðinn með öðrum hætti til mun meiri hagsbóta og verðmætaaukningar fyrir greinina og fyrir neytendur sjálfa. Við eigum ekki að vera hrædd við þessa opnun. Ég fullyrði að allir hér inni vilja styrkja og styðja við landbúnaðinn. En við verðum að þora að fara í aðrar breytingar sem henta nútímanum og framtíðinni, henta okkar rannsókna- og vísindaumhverfi, nýsköpun og sprotaumhverfi sem verður að fara að teygja sig meira inn í landbúnaðargeirann sem slíkan af því hann býður upp á það. Með því að afnema tollana, auka frelsi í landbúnaðargeiranum, fáum við aukna fjölbreytni á markaðinn. Ég undirstrika að það laðar að ungt fólk í greinina og eykur ánægju meðal neytenda.

Nálgun okkar í Viðreisn er sú að einfaldast í þessu máli væri að afnema tollana. Við vitum að beinn stuðningur til landbúnaðarins, ef við tökum búvörusamninginn, er upp á tæpa 17 milljarða og óbeinir styrkir sem felast í tollunum, viðbótarstuðningurinn sem kemur í gegnum þessa tollvernd, er frá 12–15 milljörðum. Þetta ættum við að setja frekar beint í styrki til landbúnaðarins og setja ákveðin skilyrði, að sjálfsögðu, á grunni umhverfisverndarsjónarmiða, jarðræktarsjónarmiða, þannig að þetta skili sér beint til bæði bænda annars vegar og neytenda hins vegar. Þarna eru stórkostleg tækifæri fyrir okkur stjórnmálafólk, fyrir greinina sem slíka og neytendur, að reyna að fara að vinna að þessu. Við erum með þessi örsmáu dæmi sem eru svo jákvæð og ættu að vera hvati fyrir okkur til að stíga skrefin.(Gripið fram í.) En í staðinn er þessu alltaf ýtt aðeins til hliðar. Menn þora ekki að taka á málum af því að það má ekki rugga bátnum af því að það er einhver einn hagsmunaaðili sem varar við þessu. Bíðum með þetta, endurskoðuðum þetta, skoðum þetta betur.

Það er hlutverk okkar sem erum í stjórnmálum að fá fólk með okkur í ákveðnar breytingar sem við erum sannfærð um að geti verið til hagsbóta fyrir alla, að breyta kerfum sem vissulega hafa í gegnum tíðina verið ágæt en eru núna á 21. öldinni ekki lengur boðleg. Þetta er ákall mitt og Viðreisnar til Bændasamtakanna um að taka þátt í þessu. Ég veit að innan Bændasamtakanna er öflugt og framsýnt fólk sem vill einmitt taka þátt í þessu. Það á að vera í fararbroddi, vera með í því að miðla áfram reynslu og þekkingu inn í það breytingaferli allt. Þetta er sjónarmið okkar í Viðreisn. Ég ætla ekki að fara út í það, eins og mér fannst gert á fundum nefndarinnar, að þingmenn setji sig í þau spor að meta hvort við þurfum 400 tonn af svínasíðum til viðbótar eða ekki, að við þurfum einhverja nefnd sem ákvæði hverju sinni, eins og segir í álitinu, að við þurfum að bæta gögn. Það er alltaf gott að bæta gögnin en bara til þess að það sé eitthvert stjórnvald sem ákveður það hvenær sé skortur á tilteknum vörum eða ekki? Leyfum markaðnum að ráða því, leyfum frelsinu að fljóta. Það er reynsla okkar í gegnum tíðina að þegar frelsi ræður för er það til hagsældar og skapar verðmæti og það er gott fyrir samfélagið. Það var að mínu mati hjákátlegt að upplifa þá umræðu hvort það yrði þörf á 400 tonnum af svínasíðum eða ekki þegar það blasir við og kom fram, m.a. í svörum þeirra sem komu, að ekki bara með aukinni innanlandsneyslu heldur ekki síður út af ferðamannaþjónustunni er mikilvægt að ferðamannaþjónustan hafi aðgang að svínasíðum, þar er m.a. sett á borð beikon og fleira sem ferðamenn sækjast eftir. Þetta er spurning um að sinna mörgum greinum þegar við ákveðum hvernig aðgangur eigi að vera að vörum, hvort sem það eru landbúnaðarvörur eða aðrar vörur.

Svona mál er að mínu mati barn síns tíma og ég hvet þingmenn til að fara með opnum huga í það að breyta kerfinu þannig að við aukum beinan stuðning til bænda á þeim forsendum að við tökum tillit til umhverfissjónarmiða, neytenda, lýðheilsusjónarmiða, jarðræktarsjónarmiða og þannig munum við stuðla að því að landbúnaðurinn muni lifa og dafna og vaxa sem aldrei fyrr.