150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:39]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú er það svo að við höfum reynslu af því fyrirkomulagi sem hv. þingmaður talar um varðandi það að afnema tolla á ákveðnum vörum, þ.e. tómötum og gúrkum og paprikum, og borga beingreiðslur á móti. Ef ég man rétt eru það 550 milljónir á ári sem fara þarna. Þrátt fyrir það hefur framleiðsla á þessum vörum dregist saman undanfarin ár. Það hefur verið í fréttum núna upp á síðkastið, það hefur eitthvað gerst. Nú veit ég ekki hvort það sé eingöngu vegna þeirrar vöruþróunar sem hv. þingmaður vísaði til og við þekkjum breytingarnar sem hafa orðið í tómataræktun, menn hafa farið meira út í svona litla tómata, konfekttómata og hvað þetta heitir allt saman, en paprikur og gúrkur hafa aftur á móti ekkert breyst. Samt sem áður hefur þetta gerst þar líka varðandi gúrkurnar og paprikur. Þó svo að við séum með beingreiðslur og tollverndin sé engin á þeirri vöru virðist innlenda framleiðslan ekki, þrátt fyrir þennan stuðning frá ríkinu, standast þá samkeppni sem er. Það er náttúrlega alltaf, ef má sletta, sá „debatt“ sem menn þurfa að taka um það hvaða leið sé best að fara en allir eru sammála um það, og við erum mikið sammála um það, ég og hv. þm. Þorgerður Katrín, að efla íslenskan landbúnað. Okkur greinir kannski á um þær leiðir sem þar er um rætt.