150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu sérstaklega og hvet hv. þingmann til að beita sér fyrir því. Við í Viðreisn höfum einmitt verið að tala um að taka landbúnaðinn inn í alla umhverfisumræðu, umhverfisvernd og loftslagsmálin. Við höfum hvatt umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra til að taka landbúnaðarmálin upp á grunni loftslagsmála af því að þar eru stærstu tækifærin fyrir okkur Íslendinga til að geta svarað því hvernig við berjumst við loftslagsvána. Þetta höfum við í Viðreisn ítrekað sagt og ítrekað beðið um en við sjáum ekki nein merki hjá ríkisstjórninni um að verið sé að taka upp landbúnaðarmálin og búvörusamninginn, nákvæmlega á loftslagsforsendunum.

Kannski greinir okkur hv. þingmann á um innflutninginn, ég hef nefnilega fylgst með því að menn halda að frelsið geti einmitt ekki verið stuðningur við loftslagsvernd. Ég tel að svo geti verið og er sannfærð um það en mér finnst aðrir reyna að nota loftslagsmálin til að koma á framfæri sinni hugsjón um kannski sósíalisma eða eitthvað því um líkt.

Ég er ekki vísindamaður en er að reyna að temja mér að hlusta betur á vísindamenn og vil í sambandi við kolefnisfótsporin og sauðfé m.a. benda á grein sem Þórólfur Matthíasson skrifaði á sínum tíma um kolefnisfótspor lambakjöts og landbúnaðar. Ég bendi á þá grein sem einfaldlega mitt svar við því sem hv. þingmaður spurði um.