150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[15:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins hefur verið vísað í umhverfismálin í tengslum við þessa umræðu. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom líka inn á þetta í andsvörum hér áðan. Ég óttast dálítið, í tengslum við vinnslu matvælastefnu fyrir Ísland, að með einhverjum hætti séum við að bera umhverfismál fyrir okkur í tengslum við hvernig við styðjum við innlendan landbúnað og hvað við erum að framleiða. Þess vegna langaði mig aðeins að spjalla um það við hv. þingmann. Samkvæmt úttekt sem Landssamtök sauðfjárbænda létu vinna var losun á hvert framleitt kíló af lambakjöti hér á landi tæplega 29 kíló. Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor tók sem dæmi að sambærilegar tölur fyrir Nýja-Sjáland væru 19 kíló. Að teknu tilliti til flutnings sparaði það raunar kolefnisfótspor lambakjötsins að flytja það frá Nýja-Sjálandi frekar en að framleiða það hér. Þess vegna velti því dálítið fyrir mér hvort búið sé að hugsa þá hugsun til enda ef við ætlum að beita umhverfismálunum fyrir okkur til þess að rökstyðja vernd við innlenda framleiðslu. Það er ágætt að hafa það í huga að samkvæmt alþjóðlegum úttektum er flutningur u.þ.b. 6% af heildarlosun í matvælaframleiðslu. 30% eru dýrin sjálf, 25% til viðbótar eru landnotkunin í tengslum við að ala dýrin. Þess vegna er spurningin kannski: Væri ekki nær í raun og veru að breyta þessu stuðningskerfi? Að við einbeittum okkur meira að grænmetisrækt? Að stuðningskerfi við landbúnaðinn byggði meira á hversu vel við nýttum landið og hver heildarlosunin af landnotkuninni væri eða hvernig okkur tækist að draga úr henni í raun og veru? (Forseti hringir.) Ég er ekki með neinum hætti að leggja fram tillögur um að draga úr stuðningi við landbúnaðinn heldur bara að breyta honum.