150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[15:22]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir spurningar hans og vangaveltur. Að draga úr kjötneyslu? Nú er það þannig að við horfum fram á það að á hverjum einasta degi eru alltaf fleiri í mat í dag en voru í gær. Það er staðan. Framtíðin er þannig í mínum huga að við þurfum að framleiða eins mikið af mat og við getum til þess að geta boðið öllum upp á það að borða. Ég er ekki á því að við þurfum að draga úr kjötneyslu. Ég er heldur ekki að segja að við eigum að bæta í hana en við þurfum bara að hugsa málið heildstætt. Ef við tölum um mat, næringu, horfum þá bara á prótein — við þurfum að horfa á það þannig að við getum fætt heiminn. Við erum hluti af heiminum, við erum ekki bara Íslendingar. Um það snýst málið í heild sinni. Hver þjóð sem framleiðir eins mikið af sínum mat og hægt er, hvort sem hann er grænn eða rauður, þá á ég við kjöt eða kál, ef við einföldum þetta, kemur til með að standa vel. Við hv. þingmaður getum rætt það lengi hvernig við förum að því og skipst á skoðunum um það nokkuð lengi, en við komum alltaf að sömu niðurstöðunni, þegar við fjöllum um það, um að innlend framleiðsla skapar ákveðin störf og væntanlega skapar hún líka hagvöxt.