150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[15:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja nokkur orð í belg í þessari umræðu um tollamál og breytingu á búvörulögum. Nefndin fjallaði mjög ítarlega um málið og lagði sig fram um að hlusta á ólík sjónarmið. Við höfum unnið sameiginlega að breytingum á málinu frá því að það kom til nefndarinnar á sínum tíma og ég tel að þær breytingar hafi allar verið til gagns og muni mæta innlendri landbúnaðarframleiðslu. Eins og hefur komið fram fellum við út að það sé hægt að vera með 400 tonna viðbótartollkvóta á svínasíðum. Við teljum að þeir kvótar sem eru kallaðir ESB-tollkvótar og verða í fullri framkvæmd komnir í tæp 700 tonn af svínasíðum í lok næsta árs ættu að nægja markaðnum. Við höfum tekið til endurskoðunar þau opnu tímabil sem eiga að vera tolllaus gagnvart innfluttu grænmeti, þrengt þau og tekið út sérstaklega framleiðslu eins og gulrófur og kartöflur sem við treystum á að innlendur markaður geti annað eftirspurn eftir, en ef eftirspurn verður meiri eða lítur út fyrir að það sé þörf á því verði ráðherra að koma með mál inn á þingið til að mæta því.

Ráðgjafarnefndin í þeim málum þegar skortur hefur verið undanfarin ár er lögð af. Það stenst ekki stjórnarskrá að ráðherra hafi þetta vald varðandi skattlagningu svo að við erum að breyta kerfinu að því leyti en ég tel að íslensk matvælaframleiðsla í landbúnaði og garðyrkju hafi forskot út af gæðum fyrst og fremst. Með það forskot skulum við vinna áfram. Jafnframt er mikilvægt að við neytum sem mestrar fæðu sem er framleidd í okkar nánasta umhverfi út frá kolefnisspori og loftslagsmálum sem við verðum að hafa til hliðsjónar. Þar eru tækifærin og miklir möguleikar, bæði í garðyrkjunni og hjá öðrum matvælaframleiðendum í landbúnaði. Loftslagsmálin hafa komið hér til tals og þau hafa verið tekin inn í báða þá samninga sem hafa verið endurnýjaðir og eru hér til umræðu eins og sá hluti búvörusamningsins sem núna er nautgripasamningurinn og áður sauðfjárræktarhlutinn. Þar hafa loftslagsmálin verið tekið inn í endurnýjaða samninga og ég á von á því að það verði gert þegar samningar við garðyrkjuna verða endurnýjaðir.

Ég þakka öllum nefndarmönnum í atvinnuveganefnd fyrir það góða og lausnamiðaða starf sem hefur verið í nefndinni til að mæta ýmsum álitaefnum og gera bragarbót á. Ég tel mjög mikilvægt að endurskoðunarákvæði sé inni í þessum samningi til að meta hvernig til takist og hver þróunin verði varðandi innflutning á matvöru í því breytta kerfi sem við erum að leggja upp með hér. Ég þakka nefndarmönnum fyrir góða vinnu.