150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum (aðgangur að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis vegna breytinga á upplýsingalögum sem samþykktar voru á síðasta löggjafarþingi þar sem gildissvið laganna um aðgang að gögnum var útvíkkað og látið ná til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar yrði afmarkað í lögum og reglum forsætisnefndar sem settar yrðu á grundvelli þeirra.

Markmiðið með frumvarpinu er að auka aðgang að gögnum hjá Alþingi um þann þátt sem fellur undir stjórnsýslu þingsins. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með drögum að reglum um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis sem eru fylgiskjal með frumvarpinu virðist hins vegar verið að takmarka aðganginn. Einnig var bent á að nálgunin virkaði á vissan hátt neikvæð með upptalningu á löngum lista yfir takmarkanir á réttinum. Fyrir nefndinni kom fram að litið hefði verið til reglna sem gilda um aðgang að gögnum hjá norska Stórþinginu en það er undanþegið gildissviði norskra upplýsingalaga. Í norsku reglunum er hins vegar tiltekið að upplýsingalögin gildi að svo miklu leyti sem við á með þeim útfærslum og undantekningum sem nánar felast í reglunum og takmarkanir á aðgangi þannig taldar upp. Nefndin tekur í því sambandi fram að um aðgang að upplýsingum stjórnsýslu Alþingis fer samkvæmt upplýsingalögum og þó að norsk upplýsingalög nái ekki yfir Stórþingið og að norsk þingsköp hafi ekki lagagildi eins og þingsköp Alþingis er afmörkunin á aðgangi að gögnum sambærileg hjá þingunum. Þannig virðast reglurnar vera ætlaðar til að skýra nánar hvað fellur undir stjórnsýslu Alþingis, hvað fellur fyrir utan og að hverju verði heimilt að takmarka aðgang fyrir þeim sem óska eftir aðgangi að gögnum. Nefndin leggur því ekki til neinar breytingar á frumvarpinu en telur mikilvægt að forseti Alþingis og forsætisnefnd yfirfari drög að reglum með hliðsjón af því að þær takmarki ekki þau réttindi sem tryggja á með setningu laganna.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið varðandi málsmeðferð beiðna um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis og synjun beiðna þar um en í reglunum er lagt til að beiðnum um aðgang skuli beint til skrifstofu Alþingis og að synjun um aðgang að gögnum megi bera undir forsætisnefnd. Fram kom að í ljósi þess að í forsætisnefnd er einungis eitt atkvæði þurfi í reynd ekki að vera meiri hluti fyrir því að forsætisnefnd staðfesti synjun skrifstofu Alþingis. Nefndin telur í því sambandi mikilvægt að hafa í huga að málsmeðferðarreglur IV. kafla upplýsingalaga gilda um meðferð slíkra beiðna og því gilda ákvæði laganna um málshraða, afmörkun á beiðni um upplýsingar og um rökstuðning og leiðbeiningar. Skrifstofa Alþingis sem falið er að taka við beiðnum þarf því að gæta að þessum málsmeðferðarreglum sem og forsætisnefnd þegar við á. Þá er í greinargerð með frumvarpinu auk þess tekið fram að opinn aðgangur að gögnum hjá stjórnvöldum sé meginregla í íslensku samfélagi og hafi það að markmiði að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna.

Á grundvelli sömu sjónarmiða er með frumvarpinu lagt til að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um þá starfsemi Alþingis sem fellur undir stjórnsýslu þess. Nefndin telur í ljósi þessarar meginreglu að einungis í undantekningartilvikum sé rétt að takmarka aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis og þá séu rökstuddar forsendur og sjónarmið sem forsætisnefnd þurfi að líta til og rökstyðja við ákvarðanatöku sína. Nefndin tekur í því sambandi fram mikilvægi þess að forsætisnefnd líti við úrlausn mála til þeirra fordæma sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur markað við túlkun upplýsingalaga svo að ekki skapist misræmi í túlkun á upplýsingarétti almennings. Eins er mikilvægt að í reglunum verði tilgreint nákvæmlega hvernig ákvarðanatöku innan forsætisnefndar verði háttað til þess að almenningur geti áttað sig á hvar endanlegt ákvörðunarvald liggur.

Nefndin fjallaði nokkuð um hvort rétt væri að setja lagaskilaákvæði í frumvarpið þannig að aðgangur að upplýsingum væri miðaður við ákveðinn tímapunkt. Í því sambandi liggur fyrir að þegar upplýsingalög voru fyrst sett var ekki sett neitt slíkt ákvæði til að takmarka aðganginn og skipti því ekki máli hvenær gögn höfðu orðið til hjá stjórnvöldum upp á hvort aðgangur væri veittur að þeim. Nefndin telur því ekki rétt að leggja til ákveðið tímamark í þessu sambandi en tekur fram mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að gera upplýsingar um stjórnsýslu Alþingis aðgengilegar á vef þingsins.

Virðulegi forseti. Ég hef gert stuttlega grein fyrir völdum hlutum úr nefndarálitinu en í öðrum atriðum vísa ég til nefndarálitsins sjálfs. Þórarinn Ingi Pétursson ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. Undir þetta álit rita sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson, ásamt hv. þingmönnum Líneik Önnu Sævarsdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Óla Birni Kárasyni, Brynjari Níelssyni, Þorsteini Sæmundssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Orra Páli Jóhannssyni og Þórarni Inga Péturssyni.