150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

316. mál
[17:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að gera stuttlega grein fyrir þeim fyrirvara sem ég er með á þessu máli. Ég er sem sagt einn af nefndarmönnum sem rita nafn sitt á nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar og ég samþykkti málið. Það kom fram hjá framsögumanni, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, að það hefðu verið skiptar skoðanir meðal umsagnaraðila og gesta um málið. Það er kannski einfalt að segja frá því, bara svo á það sé varpað ljósi, að það bárust fimm umsagnir, þar af ein reyndar sameiginleg frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Ef við tökum tillit til þess voru það sú umsögn og ein til sem voru jákvæðar og síðan þrjár neikvæðar. Rauði þráðurinn í neikvæðum umsögnum frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, frá Félagi skipstjórnarmanna og frá Sjómannasambandi Íslands var að menn töldu að með frumvarpinu væri verið að slaka á kröfum um réttindi og mönnun á bátum frá 12 og upp í 15 metra yrði frumvarpið að lögum og töldu ástæðu til að óttast að ekki væri nægilega fylgt eftir kröfum um menntun og reynslu.

Nefndin reyndi vissulega að bregðast við og brást við þessu og það kemur vel fram í nefndarálitinu þar sem segir: „Verði frumvarpið að lögum þarf því að huga að breytingum á menntunarkröfum“ í reglugerð þar að lútandi. Og eins og hv. framsögumaður fór yfir áðan áréttar nefndin að það þurfi að tryggja að fjöldi í hverri áhöfn samræmist vinnuálagi og að hvíldartímaákvæðið sé virt í hvívetna og beinir því til ráðherra að skipa starfshóp um útfærslu þeirra breytinga sem þarf að gera á reglugerðinni. Þar kemur kannski að fyrirvara mínum þar sem mér fannst ekki nægilega tryggt að það yrði öruggt að fulltrúar þeirra sem mestu athugasemdirnar gerðu við akkúrat þessi mál ættu sæti í þessum vinnuhópi. Það stendur í álitinu að í hann verði, með leyfi forseta, „m.a. skipaðir fulltrúar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Samgöngustofu, Tækniskólanum og Slysavarnaskóla sjómanna“. Það voru umræður í nefndinni um að Tækniskólinn myndi eiginlega uppfylla það að vera regnhlíf eða fulltrúi þeirra aðila sem hefðu lýst þessum áhyggjum, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Félags skipstjórnarmanna og Sjómannasambands Íslands. En það eru tengsl sem ég á erfitt með að sjá og enn síður eftir að ég fór í gegnum þetta eftir á og fór í gegnum það hverjir sitja í stjórn þessa skóla. Sambandið þar er ekkert þannig að ég vil bara árétta það að við útvíkkum þetta, að þetta „m.a.“ verði notað til að tryggja að þessir aðilar hafi aðgang þar að. Mér finnst eiginlega allt að því hjákátlegt að vera sérstaklega að tilgreina að það verði skipaður starfshópur til að tryggja að áhyggjum manna verði sinnt ef þeir hafa ekki sæti við borðið. En ég get ekki annað en treyst því að þetta „m.a.“ verði látið duga til þess þó að ég hefði viljað sjá það skýrara en taldi ástæðu til að koma hingað upp og gera grein fyrir þessum fyrirvara og mun síðan sjá til þess að þessar áhyggjur mínar fari áfram.