150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fræðsla um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.

36. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt nefndarálit velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um fræðslu um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Emil Thoroddsen og Stefán Vilbergsson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Arnór Víkingsson og Sigrúnu Baldursdóttur frá Þraut sem er miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma og Auði Ólafsdóttur, Jón Steinar Jónsson og Óskar Reykdalsson frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Umsagnir bárust frá Félagi sjúkraþjálfara, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Öryrkjabandalaginu, Sigrúnu Baldursdóttur og Þraut.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þær meðferðarstofnanir sem til eru þjónustuðu að mestu leyti einungis þá sem væru með vefjagigt á illvígu stigi og hefðu litla eða enga starfsgetu. Biðlistar í sérhæfð meðferðarúrræði væru langir og gera þyrfti betur í því að þjónusta fólk á fyrri stigum til þess að vinna gegn líkamlegum verkjum, skertri starfsgetu og því sálræna álagi sem sjúkdómnum fylgir oft. Þá kom fram það sjónarmið að leggja þyrfti áherslu á að bregðast fyrr við og tryggja fólki með vefjagigt á vægari stigum meiri aðgang að viðeigandi þjónustu. Var í því sambandi bent á að auðveldara væri að ná tökum á sjúkdómnum á fyrri stigum, meðferðarúrræði væru einfaldari og skiluðu betri árangri. Með því að greina sjúkdóminn fyrr og auka fræðslu og forvarnir, sem og þekkingu innan heilsugæslunnar, væri hægt að ná góðum árangri í því að stemma stigu við verkjum og óvinnufærni. Grunnmeðferð við vefjagigt ætti að byggjast á fræðslu, hugrænni atferlismeðferð og hæfilegri en reglulegri þjálfun. Slík meðferð gæfi í flestum tilfellum góðan bata þegar hún væri veitt á fyrri stigum.

Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin mikilvægt að áhersla verði lögð á að efla heilsugæsluna í greiningu, meðferð og eftirfylgni við hana. Þannig megi bregðast við og oftar koma í veg fyrir að sjúkdómurinn nái illvígu stigi. Með eftirfylgni má einnig tryggja að einstaklingurinn haldi sjálfur virkni.

Í umsögn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að heilsugæslan sé í stakk búin til að þróa og veita grunnmeðferð með læknum, sálfræðingum og hreyfistjórum. Þá kæmi einnig til greina að innleiða alþjóðlega skimunar- og matslista sem hefðu skilað góðum árangri í greiningu vefjagigtar. Nefndin er sammála um mikilvægi þeirrar vinnu og beinir því til heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að grunnþjónusta verði aðgengilegri innan heilsugæslunnar.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn velferðarnefndar, Helga Vala Helgadóttir formaður, Halla Signý Kristjánsdóttir sem hér stendur, framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt óbreytt.

Virðulegi forseti. Ég lagði fram þessa þingsályktunartillögu í fyrra sem er endurflutt í ár og er það af þeirri nauðsyn að eftir að hafa kynnt mér málið taldi ég nauðsynlegt að taka utan um þennan hóp og reyna að bæta líðan hans og eins að koma honum fyrir inn á vinnumarkaðinn aftur. Einstaklingum sem metnir eru til örorku hefur fjölgað ár frá ári. Þeim sem metnir hafa verið 75% öryrkjar fjölgaði um 3,9% milli áranna 2016 og 2017. Fjölmargar ástæður liggja að baki örorku einstaklinga. Þó er einn sjúkdómur algengari hér á landi en víða erlendis samkvæmt svari við fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á síðasta vetri, en það er vefjagigt. Vefjagigtargreining var talin meðvirkandi þáttur í 75% örorku hjá 14% allra kvenna sem voru á örorku. Örorka vefjagigtarsjúklinga orsakast oft af samverkandi þáttum vefjagigtar, annarra stoðkerfissjúkdóma og geðsjúkdóma. Talið er að vefjagigt hrjái 2–13% fólks á hverjum tíma. Hún er algengari hjá konum en körlum, það eru þrjár til fjórar konur á móti einum karli. Það eru ekki til heildarupplýsingar um fjölda einstaklinga sem greindir hafa verið hér á landi en í rannsókn frá 1998 reyndist algengi vefjagigtar vera 5,6% á meðal 18 ára einstaklinga og eldri en erlendis er algengi vefjagigtar oftast á bilinu 1–4%. Vefjagigt er yfirleitt langvinnur sjúkdómur sem ekki læknast og því fjölgar í hópi vefjagigtarsjúklinga með hækkandi aldri.

Engar ritrýndar niðurstöður hafa verið birtar um árangur af meðferð á vefjagigt á Íslandi. Þraut – miðstöð um vefjagigt hefur tekið saman upplýsingar um árangur endurhæfingar fyrir fjögurra ára tímabil, árin 2011–2015. Niðurstöðurnar voru annars vegar birtar í skýrslu Þrautar til Sjúkratrygginga Íslands árið 2014 og hins vegar í nýlokinni meistararitgerð Sigríðar Björnsdóttur í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Niðurstöðurnar sýna þýðingarmikinn, marktækan bata eftir endurhæfingu hvað varðar heildarstöðu sjúklinganna, færni og lífsgæði. Niðurstöðurnar sýna einnig að verkir, þreyta, andleg líðan og streitueinkenni batna marktækt eftir endurhæfingu.

Það er forvitnilegt að spá í af hverju hér eru miklu fleiri hlutfallslega með þennan illvíga sjúkdóm. Þetta er langvinnur sjúkdómur. Kannski er það af þeirri einföldu staðreynd að það er ekki eins vel tekið utan um þennan hóp hérlendis, því versni sjúklingum enn frekar og þá skipi fleiri einstaklingar þann hóp.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram þessa þingsályktunartillögu þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og geta boðið upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna. Heilbrigðiskerfið þarf að leggja við eyrun og hlusta á þennan þögla sjúkdóm og viðurkenna hann sem stóran þátt í að fólk á öllum aldri dettur út af vinnumarkaði og einangrast heima með verkjasjúkdóm sem gerir einstaklinginn óvirkan, bæði á vinnumarkaði og sem þátttakanda í samfélaginu. Þegar ég var að kynna mér sjúkdóminn og ræða við einstaklinga og þá meðferðaraðila sem hafa séð um hann kom í ljós sá stóri þáttur fræðslan sem skiptir máli vegna þess að gegn sjúkdómnum hafa verið svolitlir fordómar. Þetta er eins konar ruslakista sem því hefur verið hent í sem ekki er hægt að festa fingur á. Fræðsla er mikilvæg og það að þetta færist inn í heilsugæsluna er liður í að minnka fordóma gegn þessum hópi og í því getur líka falist góð meðferð.