150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar. Það er rétt að taka það fram strax í upphafi að breytingartillögur sem kynntar eru í þingskjalinu hafa verið kallaðar til baka. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund góða gesti en umsagnir bárust einnig frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Barnaheillum, BSRB, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Geðverndarfélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Ljósmæðrafélagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það er líka rétt í upphafi, herra forseti, að nefna það sem ég nefndi í ræðu minni þegar málið var lagt fram við 1. umr., að málið kom fram seint og ég held að það sé óhætt að segja að vinna nefndarinnar hafi nokkuð mótast af því og má í rauninni með ágætum rökum segja að við hefðum gjarnan viljað fá lengri tíma til að klára þetta mál.

Með frumvarpinu er lagt til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur úr níu mánuðum í 12 mánuði og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. á árinu 2020 og á árinu 2021. Eins og þingmönnum er kunnugt er lenging fæðingarorlofsins hluti af stefnu núverandi ríkisstjórnar og hefur raunar verið á stefnuskrá sennilega flestra stjórnmálaflokka á Íslandi, ef ekki allra, um alllangt skeið og augljóslega, eins og hv. þingmönnum er kunnugt um, mjög mikið baráttumál íslenskrar verkalýðshreyfingar. Framlagning frumvarpsins á þessum tíma er því að nokkru leyti tengd lífskjarasamningunum sem gerðir voru síðastliðið vor.

Umsagnir um málið voru almennt mjög jákvæðar og raunar einnig þær umsagnir sem bárust inn á samráðsgátt stjórnvalda í aðdraganda framlagningarinnar. Hins vegar komu fram við umfjöllun nefndarinnar athugasemdir um að í lögum um fæðingar- og foreldraorlof væri ekki tekið með fullnægjandi hætti á aðstæðum einstæðra foreldra sem gætu verið mismunandi, enda réttur hvors foreldris óframseljanlegur. Markmið laganna væri að tryggja barni samvistir við foreldri. Í aðstæðum þar sem einungis annað foreldrið hefur áhuga á að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs gæti barnið ekki notið samvista sem lögunum er ætlað að tryggja. Þá var bent á að einnig kæmu þar til skoðunar jafnréttismál, til að mynda þegar einstæðir foreldrar sem sinna einir uppeldi barns þurfa að hverfa af vinnumarkaði í lengri tíma en gildandi lög gera ráð fyrir til að annast hið nýfædda barn.

Nefndin tekur undir þessi sjónarmið en bendir jafnframt á að þegar hefur verið skipuð nefnd í tengslum við heildarendurskoðun laganna og meiri hluti velferðarnefndar telur brýnt að við vinnu þeirrar nefndar verði mótaðar tillögur sem taki sérstaklega á þeim fjölbreytilegu fjölskyldumynstrum sem eru og munu halda áfram að verða í íslensku samfélagi.

Í vinnu nefndarinnar komu einnig fram, innan nefndarinnar og einnig í samtölum við gesti, margvísleg sjónarmið um með hvaða hætti væri best að haga skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra. Það var til að mynda bent á í sumum umsögnum að best væri að skilgreina allan réttinn, hann væri algjörlega niðurnjörvaður, og síðan heyrðust sjónarmið alveg yfir á hinn vænginn, að það væri óþarfi að skilgreina nokkurn hluta réttarins. Þessi umræða mun að einhverju leyti fara fram í nefnd um heildarendurskoðun laganna. Í rauninni má segja að frumvarpið eins og það er lagt fram felli kannski nokkurs konar salómonsdóm í því hvað sé heppilegast í því en það er í sjálfu sér ekki gefið að nefnd um heildarendurskoðun komist að sömu niðurstöðu. Það eru, eins og ég nefndi áðan, uppi margvísleg sjónarmið. Nefndin hafði talið að með þeirri niðurstöðu sem hafði verið kynnt með breytingartillögum væri komin ásættanleg lending og hægt að una við hana. En ég legg til, herra forseti, eins og ég hef nefnt áður, að breytingartillögurnar verði kallaðar til baka, málið komi aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. þannig að nefndinni gefist ráðrúm til þess að taka a.m.k. einn snúning í viðbót á því með hvaða hætti skiptingin verður. Það liggur hins vegar algerlega ljóst fyrir að fyrir árið 2020 verður skiptingin það sem kallað hefur verið fjórir, fjórir, tveir, þ.e. fjórir mánuðir skilgreindir á hvort foreldri og tveir mánuðir til ráðstöfunar eftir mati foreldranna. Að því leyti til eykst réttur beggja foreldra miðað við það sem er í núgildandi lögum úr þremur mánuðum í fjóra en til móts við það styttist sá tími sem þessi svokallaði sameiginlegi réttur verður.

Nefndin, eða ég tel hins vegar heppilegast — það er hugsanlega ekki rétt að vitna í nefndina hér — að fremur en að skrifa það út í lögunum á þessu stigi málsins endanlega með hvaða hætti skiptingin verður árið 2021 fari betur á því að mæla fyrir um það að niðurstaða endurskoðunarnefndarinnar verði lögð til grundvallar þegar ráðherra leggur fram frumvarp þar um. Engu að síður verði tryggt, eins og kemur fram í frumvarpinu, að á þessu stigi máls festum við 12 mánaða rétt til fæðingarorlofs. Við tökum hins vegar ekki endanlega ákvörðun um með hvaða hætti skiptingin verður og þess vegna er mikilvægt að fá málið inn milli 2. og 3. umr. þannig að nefndin hafi ráðrúm til að smíða breytingartillögu í samræmi við þau sjónarmið sem ég hef nefnt.

Ég vil að lokum þakka hv. nefnd fyrir góða vinnu og góðar umræður um málið. Það er mikið fagnaðarefni að Alþingi Íslendinga skuli vera að ákveða að lengja réttinn til fæðingarorlofs. Það er í mínum huga stórmál og sennilega eitt stærsta málið sem lagt hefur verið fram á þessu kjörtímabili, a.m.k. hvað varðar réttindi borgaranna, og mikið ánægjuefni að fá að taka þátt í þeirri vinnu og taka þátt í því að ljúka því máli þannig að foreldrar og börn á Íslandi eigi rétt til 12 mánaða fæðingarorlofs.