150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Ég fann mig knúna til að koma upp vegna orða hv. þingmanns um að skiptingin eins og hún hefur verið og eins og hún er hugsuð sé best vegna þess að með henni séu feður frekar knúnir til að taka fæðingarorlof. Ég er auðvitað mjög fylgjandi því að báðir foreldrar taki fæðingarorlof. Ég vil bara greina frá því hér í pontu að það er besta mögulega staða sem við höfum að báðir foreldrar taki fæðingarorlof, taki jafnt fæðingarorlof og skipti því jafnt á milli sín. Rannsóknir sýna að það sé best fyrir barnið að fá að tengjast báðum foreldrum og best fyrir foreldrana að fá að tengjast barninu. Það dýpkar öll tilfinningatengsl við barnið. Að þessu sögðu erum við að fjalla hér um hina hefðbundnu fjölskyldu. Við sem löggjafi þurfum að horfa á hvernig við getum tryggt hagsmuni barnsins sem best þegar ekki eru báðir foreldrar til staðar. Stundum er bara um að ræða eitt foreldri, hvernig sem á því stendur. Það er mjög slæmt þegar löggjafinn fer í gegn með mál af þessu tagi án umræðu og (Forseti hringir.) tekur ekkert tillit til þess að barn fái nægjanlegan tíma.