150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Forseti er farinn að skipta tímanum jafnt. [Hlátur í þingsal] Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna þetta vegna þess að ég hefði viljað nefna það í ræðu minni hér áðan. Það þarf einhvern sveigjanleika í kerfið sem er ekki í því í dag. Sum börn eiga bara eitt foreldri, það er alveg rétt. En sum börn sem eiga eitt foreldri njóta meiri réttar samkvæmt gildandi lögum en önnur börn sem eiga bara eitt foreldri, það fer eftir því hvernig börnin eru til komin. Ég nefndi börn sem getin eru með tæknifrjóvgun. Það einstæða foreldri nýtur meiri réttar en einstæða foreldrið sem eignast barn með einstaklingi sem gengst ekki við því. Þann sveigjanleika náum við ekki að útfæra í stuttu frumvarpi sem snýst um að lengja fæðingarorlofið. Það er almenn breyting sem nær einhvern veginn yfir allt kerfið. En það sem hv. þingmaður nefnir er eitthvað sem ég held að nefnd um heildarendurskoðun kerfisins hljóti að taka til rækilegrar skoðunar. Mér dettur t.d. í hug að það mætti leysa með því að það væri einfaldlega eitthvert stjórnvald, einhver stofnun, sem gæti metið aðstæður fjölskyldu, aðstæður einstaklinganna, aðstæður barnanna, til að segja til um hvort tiltekið dæmi geti fallið undir einhverja grein sem væri í lögum framtíðarinnar um að eitt foreldri fengi aukinn rétt til fæðingarorlofs. Það er sveigjanleiki sem ég held að ætti að vera í lögunum. En ég held einnig að það sé sveigjanleiki sem við setjum ekki í þau hér og nú.