150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Það eru auðvitað ekki allir í þeirri stöðu að hitt foreldrið gangist ekki við hlutverki sínu. Stundum er bara hreinn ómöguleiki til staðar. Ég tek heils hugar undir þá hugmynd hv. þingmanns að til verði einhvers konar stjórnvald sem meti þann ómöguleika. Það á að vera meginregla að báðir foreldrar nýti sér töku fæðingarorlofs af því að það er barninu til heilla og við viljum ekki hverfa til baka til þess þegar annað foreldrið tekur allt fæðingarorlofið og hitt foreldrið kemur heim á kvöldin. Það er einhvern veginn ekki þangað sem við viljum fara. En ég er ósammála hv. þingmanni þegar kemur að því að þingnefnd, fastanefnd á vegum þingsins, geti ekki gert breytingar í þessa veru. Fastanefndir þingsins gera iðulega margvíslegar breytingar á lögum, jafnvel að eigin frumkvæði, og við erum að afgreiða slík mál hér bara í dag og í gær og eftir helgi. Það að taka góða umræðu um þetta er af hinu góða þegar verið er að fást við mál eins og þetta. Nú er verið að lengja fæðingarorlofið. Eftir áramót fæðast börn í þessum aðstæðum og auðvitað eigum við að nota hvert einasta tækifæri til að gera það. Ef ekki hefði verið beðið frá lífskjarasamningunum í apríl fram til loka nóvember með að koma með málið inn í þingið hefðum við t.d. getað gert það. Ef við hefðum fengið þetta mál inn til okkar í ágúst eða september, þegar þingið tók til starfa í haust, hefðum við getað unnið það 2020-börnunum til heilla. En því miður bauð ríkisstjórnin okkur ekki upp á það.