150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er hjartanlega sammála þingmanninum um að þetta mál hefði þurft að koma miklu fyrr til þingsins. Þetta er mjög lítið og afmarkað mál sem ég hefði gjarnan viljað sjá líta dagsins ljós í september eða október þannig að það fengi meiri og betri umfjöllun í nefnd. Þegar ég segi að ekki sé hægt að gera viðamiklar breytingar á því hvernig tekið sé á stöðu barna þar sem ómögulegt er að annað foreldrið taki fæðingarorlof, þá meina ég það bara hreint praktískt út frá því hvar við erum á almanakinu. Ég sá fyrir mér að velferðarnefnd næði kannski ekki utan um þá hugsun sem ég held, alla vega við fyrstu sýn, að gæti verið pínulítið flókin á þeim örfáum sólarhringum sem eru til jólaleyfis vegna þess að þetta er mál sem við viljum öll klára fyrir áramót. En þar sem hv. þingmaður er formaður velferðarnefndar treysti ég henni til að meta það betur en ég og þau skoða það náttúrlega í velferðarnefnd þegar hún kemur saman.