150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég stenst ekki freistinguna að taka hér aðeins orðið, þó að ekki væri nema til þess, ef ég hef fylgst rétt með, að það gæti leitt til þess að aldrei þessu vant yrðu í umræðum á Alþingi um fæðingarorlof fleiri karlar en konur, eða a.m.k. jafn margir, sem tækju þátt í umræðunni og væru það nokkur tímamót því að stundum vildi það bera við hér á árum áður að í allt of miklum mæli væri litið á þetta sem einkamál kvenna.

Ég fagna þessu frumvarpi mjög. Ég er mikill stuðningsmaður þess kerfis sem hér var tekið upp á sínum tíma, lagði að vísu af stað í ákaflega litlum skrefum, að feður öðluðust rétt og síðan sjálfstæðan rétt til að vera þátttakendur í fæðingarorlofi. Ég hefði helst viljað getað talað um skyldu í þessum efnum, að þetta væru foreldraskyldur. Ég hygg að það sé rétt munað að ég hafi orðið fyrsti faðirinn á Alþingi til þess að taka fæðingarorlof. Það var þegar yngsta barn mitt var komið í heiminn, 1998, og það voru heilar tvær vikur. Þannig var það nú. Það voru ákaflega eftirminnilegar og dýrmætar tvær vikur, þó að þær væru ekki meira en það.

Ég hef síðan fylgst með þessu þróast upp í gegnum tíðina. Það var gaman að vera Íslendingur t.d. á árunum upp úr aldamótunum þegar þetta kerfi okkar með sjálfstæðum óframseljanlegum rétti feðra vakti mikla athygli og ruddi brautina annars staðar á Norðurlöndunum. Þá var virkilega gaman að vera alþingismaður Íslendinga og geta stoltur tekið þátt í að fræða nágrannaþjóðirnar um þetta fyrirkomulag. En svo gerðist það, því miður, að við fórum að dragast aftur úr og það er hárrétt hjá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að þessu er sko meira en tímabært að ljúka, a.m.k. þessari lengingu upp í 12 mánuði. Við höfum af ýmsum ástæðum, sem ég ætla af diplómatískum ástæðum ekki að fara út í, tapað sjö árum í þeim efnum. Það var nefnilega þannig að á árinu 2012 var um það samstaða, a.m.k. í þáverandi ríkisstjórn og stutt af fleirum, að við ættum að sjálfsögðu að nota batnandi þjóðarhag sem þá var í augsýn til að hafa þetta sem eitt af forgangsverkefnunum, að sækja fram aftur í uppbyggingu íslenska velferðarkerfisins og lengja fæðingarorlofið. En það er betra seint en aldrei.

Ég held að menn eigi ekki að missa sjónar á því hversu gríðarlega mikilvægt jafnréttistæki þetta fyrirkomulag er gagnvart vinnumarkaðnum um leið og það er auðvitað mikilvægt réttlætismál, mikilvægt félagslegt mál, að þetta sé með þeim hætti að fæðingarorlofsréttinum sé deilt á milli foreldra og að hann sé ekki framseljanlegur nema þá í litlum mæli. Það má ekki vera nema í litlum mæli þegar allt er með felldu og báðir foreldrarnir til staðar vegna þess að þá byrjar bitið í tækinu að minnka af ástæðum sem var ágætlega farið yfir í síðustu ræðu. Það tengist svo aftur hinu, að þetta er samspil við kynbundinn launamun og þá staðreynd að því miður eru það of oft feðurnir sem eru betur launaðir en mæðurnar. Það er ósköp einfaldlega þannig að þetta vinnur á kynjahallanum sem annars er á vinnumarkaðnum og hefur tilhneigingu til þess að vera þá til trafala ungum konum á barneignaaldri á tvennan hátt aðallega, tel ég. Annars vegar eiga þær erfiðara með framgang í starfi og hins vegar þykja þær kannski ekki að öllu leyti jafn tryggur vinnukraftur. Þannig var það auðvitað í gamla daga. Það verður bara að tala mannamál um þá hluti. Það var stórkostlega hamlandi fyrir ungar konur að andrúmsloftið var a.m.k. í þá tíð þannig í samfélaginu að vinnuveitendur í stórum stíl réðu þær ekki nema þeir ættu ekki kost á karlmanni vegna þess að þær yrðu svo bara alltaf ófrískar og þá væri ómögulegt að standa í þessu. Svona var gamli hugsunarhátturinn. Við erum auðvitað komin langa leið. Ég held að viðhorfin séu gjörbreytt. Að þessu leyti til er þetta kannski ekki eins mikið áhyggjuefni og þetta var einu sinni. En hitt er til staðar.

Síðan vil ég nefna inn í þetta samhengi, ásamt með auðvitað fleiru sem tengist því hvernig að ungu barnafjölskyldunum er búið, að þetta er gríðarlega mikilvægt þjóðhagslegt mál sem hefur ekki fengið það vægi í umræðunni á þeim forsendum sem því bæri vegna þess að þetta er auðvitað hluti af því að gera almenna atvinnuþátttöku kvenna mögulega. Við höldum kannski í dag að hún sé sjálfsagður hlutur en hún var það ekki einu sinni. Og auðvitað er það þannig að þeim mun betur sem búið er að barnafjölskyldum að þessu leyti og þeim gert auðveldara að ala upp börnin og búa þeim gott umhverfi en vera jafnframt virk á vinnumarkaði, þeim mun meiri verður atvinnuþátttaka beggja kynjanna. Það hefur gríðarlegt þjóðhagslegt gildi. Það er ekki erfitt að lesa saman, ef við lítum 50 eða 70 ár aftur í tímann, að stór hluti af aukinni velsæld á Íslandi tengist vaxandi atvinnuþátttöku kvenna. Það er einfaldlega þannig að verðmætasköpunin vex. Við nýtum allan mannauðinn í staðinn fyrir að sumar þjóðir eiga enn þá langt í land að þessu leyti þar sem atvinnuþátttaka kvenna er sorglega lág og það er auðvitað sorglegt í öllu tilliti.

Ég vil aðeins fá að hugleiða, ég vona að ég stuði engan með því, að ég er ekki alveg sammála eða átta mig ekki til fulls á uppstillingunni þegar menn vilja aðgreina og tala aðgreint um réttindi foreldranna í þessu sambandi og réttindi barnsins. Ég er ekki alveg staddur þar vegna þess að í mínum huga er þetta algerlega samofið. Algerlega. Réttindi barnsins snúa auðvitað í fyrstu umferð að því að það búi við eins hagstæð skilyrði, góða umönnun og gott uppeldi og mögulegt er. En það er líka hluti af rétti barnsins að njóta samvista við báða foreldra. Það skiptir í mínum huga ekki máli hvort við nálgumst málið þannig að segja: Jú, það eru foreldrarnir sem taka fæðingarorlofið. Það er í öllu falli eitt sem er ljóst. Og er þá réttur barnsins leiddur af rétti foreldranna til að taka fæðingarorlof eða er réttur foreldranna leiddur af rétti barnsins? Skiptir bara engu máli fyrir mér. Þetta er samofið og við eigum að nálgast þetta út frá þeirri heildstæðu hugmyndafræði, að mínu mati, þetta eru eiginlega tvær hliðar á sama peningnum. Mikilvægur hluti af þessu öllu saman er að barnið njóti samvista við báða foreldra sína, enda séu þeir til staðar.

Kem ég þá að því sem hér hefur aðeins verið nefnt réttilega, að þetta er ekki eins einfalt og það væri í hinum besta heimi allra heima, að barn eigi að báða foreldra sína, ég væri alveg til í að segja alla ef fjölskyldumynstrið hefði verið skilgreint upp á nýtt, svo ég játi bara þá róttækni að ég gæti vel hugsað mér nútímalegri og róttækari skilgreiningu á fjölskyldunni. Ágætt að búið sé að ræða þjóðkirkjuna þegar maður segir þetta. En þannig er það ekki og vissulega erum við með aðstæður þar sem bara einu foreldri er til að dreifa. Við viljum auðvitað ekki eins og kostur er að það verði á kostnað réttinda foreldrisins og/eða barnsins. En það er hægara sagt en gert að sameina þetta tvennt þannig að vel fari. Annars vegar að missa ekki kosti kerfisins sem jafnar aðstæður kynjanna á vinnumarkaði og tryggir rétt barnsins til að kynnast báðum foreldrum og hins vegar að reyna einhvern veginn að finna leiðir til þess að það verði ekki á kostnað þeirra tilvika sem eru sannarlega til staðar þar sem bara er einu foreldri til að dreifa. Hvernig reyna menn þá að nálgast það? Jú, það er auðvitað þannig að lögin geyma undanþágur, að sjálfsögðu, og það er mögulegt að annað foreldrið taki þá meira þegar augljósar ástæður blasa við, þegar annað foreldrið er látið þegar að fæðingu barns kemur eða að töku fæðingarorlofs kemur, þegar annað foreldrið er í fangelsi eða eitthvað slíkt. Þá er ekki svo erfitt að segja já, þá auðvitað verður tekið tillit til þess. Málin vandast þegar ástæðurnar eru flóknari, þegar einhverjar félagslegar eða heilbrigðislegar aðstæður eru sem gera það mjög hæpið eða eiginlega ómögulegt kannski að annað foreldrið taki sinn hluta fæðingarorlofsins. En það er til staðar. Þetta hafa menn talsvert glímt við og ég held að það væri allt í lagi fyrir velferðarnefnd að láta fletta upp á pappírum og/eða eftir atvikum draga aðeins á reynslu þeirra sem sátu einmitt í velferðarnefnd fyrir líklega þremur, fjórum árum og glímdu heilmikið við þetta mál. Þá fórum við mjög í gegnum spurninguna: Er hægt að gera þetta einhvern veginn betur en er í núgildandi löggjöf? Mitt svar er: Já. Glíma á við það að ná betur utan um þessi jaðartilvik með þetta í huga, að varðveita réttindin eins og mögulegt er við mismunandi og breytilegar, jafnvel að einhverju leyti félagslegar, heilbrigðislegar aðstæður. En það þarf að vanda sig rosalega vel. Slíkar undanþágur verða að vera vandlega og þröngt skilgreindar til þess að hitt fari ekki fyrir borð. Það er bara þannig. Ég hallast að því, og ég heyrði það nefnt áðan, sem var einmitt okkar eiginlega niðurstaða, án þess að það hefði nein áhrif því að það komi aldrei til breytinga á lögunum á sínum tíma þegar við sátum yfir þessu í velferðarnefnd einhvern tímann fyrir allmörgum árum, að það yrði þá hreinlega að koma upp einhverjum aðila sem gæti metið og eftir atvikum úrskurðað eða verið til ráðgjafar gagnvart því þegar þyrfti að taka á slíkum jaðartilvikum. Það yrði þá einfaldlega að vera þannig að ef slíkar flóknar aðstæður gerðu þetta að sérstökum tilvikum gætu menn eftir atvikum sótt um að fá að fara yfir mörkin og nýta meira réttinn sem má skipta, en það gengi þá í gegnum mat og faglegan farveg og eftir atvikum væri einhver sem t.d. hefði möguleika á því að aðstoða viðkomandi aðila sem fóstrar fæðingarorlofið og sér um greiðslurnar við það að komast að niðurstöðu um hvort forsendur væru fyrir að veita undanþágur. Auðvitað staldrar maður við sveitarfélögin í þessum efnum og félagsþjónustu þeirra. Þau stóru og öflugu myndu að sjálfsögðu geta verið þar til staðar því að þau vinna mörg mjög skyld verk, ekki satt? En hugsanlega þarf að búa um þetta einhvern veginn öðruvísi.

Ég fagna því að það verði rýnt ásamt með öðru og lít svo á og veit að það er í gangi. En það sem við erum að tala um hér er fyrst og fremst þetta einfalda mál sem snýr að því í þeim skilningi að lengja fæðingarorlofið og binda það í lög og þá er það loksins í höfn að það sé komið upp í 12 mánuði.

Ég vil nefna svo í lokin annan hlut sem ég hef verið áhugasamur um og talað fyrir. Það er að sveigjanleikinn verði aukinn þegar kemur að réttinum til að taka fæðingarorlofið lengra upp með aldri barnsins. Ég tel að við eigum líka að skoða það mjög vel að geyma megi einhvern hluta fæðingarorlofsins og taka hann út í einhverjum skömmtum, vikur í senn eða eitthvað slíkt. Að mínu mati ætti það að vera allt upp að a.m.k. sex ára aldri barnsins þannig að foreldrar geti átt geymt fæðingarorlof, viku, mánuð, hálfan mánuð og nýtt hann, t.d. þegar barn hefur göngu í leikskóla eða grunnskóla. Þannig er þetta t.d. í Svíþjóð, ef ég þekki það rétt, það var a.m.k. þannig fyrir um tveimur áratugum síðan þegar ég þekkti kerfið þar.

Og svo að lokum: Vonandi dugar þetta framlag ríkisins til að setja verulega pressu á sveitarfélögin að mæta því með því að loka gatinu þannig að þessu hörmulega dagvistunargati, sem hefur verið um ár eða meira, upp í 15 mánuði sums staðar, verði bara lokað því að það á ekki að skilja eftir eitthvert vandræðatímabil fyrir fjölskyldur á meðan barnið er á milli eins og tveggja ára gamalt. Það verður einfaldlega að ganga í það mál að setja upp einhverjar áætlanir um að sveitarfélögin og eftir atvikum ríkið, ef þarf að gera eitthvað enn þá meira, hjálpist að við að loka þessu gati og að mínu mati, að sjálfsögðu, er ég ekki horfinn frá gömlu baráttumáli um að leikskólinn eigi að vera gjaldfrjáls, svo ég haldi því til haga.

Ég minni á að sveitarstjórnarkosningar verða árið 2022. Af því að enn sitja hér í salnum fulltrúar nokkurra flokka gerðu menn margt vitlausara en að reyna að hafa áhrif á það í gegnum sín sambönd og flokka að setja myndarlegan þrýsting á sveitarfélögin að þetta verði að stórmáli fyrir kosningarnar 2022. Þá er þetta komið til framkvæmda af hálfu ríkisins, fæðingarorlofið orðið 12 mánuðir. Að mínu mati ætti það að vera eitt af stóru verkefnunum sem sveitarfélögin tækjust á við að lofa umbjóðendum sínum, íbúum, að þau ætli sér að koma á móti ríkinu og loka umönnunargatinu á fyrstu æviárum barna.