150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[10:56]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð yfir nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar. Ég kem hingað upp vegna álitaefnis sem kom fram í umsögn Seðlabanka Íslands við þetta frumvarp til laga um Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun þess efnis að í 2. gr. er sagt, með leyfi forseta að stefnt skuli að því „að almenningur hafi aðgang að öruggu og vistvænu húsnæði á viðráðanlegu verði og í samræmi við þarfir hvers og eins, óháð efnahag og búsetu.“ Gerði Seðlabanki Íslands athugasemd við þetta, að orðalagið „óháð efnahag og búsetu“ væri of opið og óljóst, óþarflega opið, og mætti skilja sem svo að greiðslugeta lántaka ætti ekki að skipta máli. Ég vil fá að heyra afstöðu hv. þingmanns til þessa og hvort meiri hlutinn hafi eitthvað velt þessu fyrir sér.