150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[11:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Valdið tjóni? Það var ekki af neinu kæruleysi að við tókum ekki endilega afstöðu til þess en það er bara spurning hvernig ætti að þrengja þetta þannig að hægt væri að koma til móts við þetta. Nú liggur fyrir minnihlutaálit inni þar sem er nokkur breyting og verið að bregðast við þessum atriðum. Mér finnst það vera túlkað nokkuð þröngt og ég veit ekki hvort það myndi endilega skila árangri hvað þetta varðar. Það hefur alla vega ekki verið skýrt í meðferð nefndarinnar á málinu hvernig ætti að koma til móts við þetta, enda teljum við að mögulega sé verið að gera það almennt í frumvarpinu, að það þurfi ekki endilega að bregðast við þessu með þeim hætti sem minni hlutinn leggur til. Það varð alla vega ekki niðurstaðan hjá okkur að gera það.