150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[11:03]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Það kom einmitt fram í þessum óundirbúna fyrirspurnatíma að það að hugbúnaðurinn væri á eignarhaldi ríkisins þyrfti ekki að koma í veg fyrir að það yrði eitthvert útboð á vinnunni. Hæstv. fjármálaráðherra sagði einmitt að hætta væri á því að ríkið festist nánast í viðskiptum við þá aðila sem tækju að sér að þróa hugbúnaðinn og væru eigendur hans.

Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í því felst þá að það getur orðið óyfirstíganlegt að hætta í þeim viðskiptum og leita eitthvert annað.“

Hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið undir að það þurfi að skoða þetta af því að það er augljóst að núverandi fyrirkomulag við það hvernig við höfum verið að greiða fyrir þróun hugbúnaðar kostar skattgreiðendur ofboðslega mikinn pening. Mér finnst áhyggjuefni að ekki sé verið að taka á þessu og stoppa þetta eða a.m.k. eiga samtal um hvernig við ætlum að gera þetta í framtíðinni áður en við förum að eyða gríðarlega miklum peningum í að þróa nýjan hugbúnað án þess að hafa tekið á því hvernig við ætlum að koma í veg fyrir að endurtaka Orra.