150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[11:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Við deilum þessum áhyggjum og ákveðinni óánægju með það hvernig til hefur tekist að mörgu leyti með þetta þó jákvæða mál. Það hlýtur því að vera verkefnið fram undan að koma þessu í skikkanlegt horf þannig að þetta verði raunverulega til bóta. Ég tek hjartanlega undir þau dæmi sem hv. þingmaður nefnir hér um að umsagnaraðilar á fyrri stigum hafi ekki áttað sig á þessum breytingum eða á þessari tvöföldu umferð. Ég get nefnt sem dæmi í þessu tiltekna máli að það kom fram á fundi nefndarinnar, frá þeim sem þótti stærsti hluti starfsemi Mannvirkjastofnunar vera fyrir borð borinn í þessari sameiningu, að þau hefðu reynt, eins og þau orða það, að koma því að á fyrri stigum. Það var einhvern veginn skautað yfir það og þá hættu þau við. Það er eins og þau hafi ekki áttað sig á því að hér væri önnur meðferð, hin eiginlega þinglega meðferð, sem skipti máli. Þegar það var komið upp á yfirborðið var tíminn einfaldlega runninn út og ekki hægt að gera neitt vegna þess að það lá á málinu. Mig langaði bara að árétta það hér að ég tek undir það að þetta má ekki verða bastarður.