150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[12:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir ræðuna. Mig langar að tæpa á því sem þingmaðurinn kom töluvert mikið inn á í ræðunni, þ.e. 15. gr. frumvarpsins. Í henni er einmitt talað um húsnæðisgrunn og byggingagátt sem ekki bara aðilar á þessum markaði hafa kallað sérstaklega eftir, aðilar á byggingarmarkaði og mannvirkjagerð, heldur líka sveitarfélögin. Hv. þingmaður stendur að breytingartillögu sem að mínu mati mun draga algjörlega tennurnar úr hugmyndinni á bak við þessa byggingagátt, þ.e. að einhvers staðar séu til og aðgengileg með rafrænum hætti þau gögn sem þarf til að hægt sé að gera áætlanir, til að stjórnvöldum sé mögulegt að gera plön fram í tímann með það hvernig eigi að standa að stjórnsýslu þessara mála í landinu, þar með talið þáttum eins og hvað þarf á hverjum tíma að gera ráð fyrir miklum byggingum í landinu, hvort ríkið þurfi að leggja til fjármagn o.s.frv. Mér finnst að með því að taka að stofninum til út allan seinni málslið 15. gr. sé algjörlega verið að draga tennurnar úr þessari hugmynd.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann: Er þingmaðurinn þá í rauninni að segja að áhyggjur sveitarfélaganna og ýmissa framkvæmdaraðila í þessum málum séu óþarfar, að það sé óþarfi að velta fyrir sér hvað sé að gerast á þessum markaði í heild og að einhvers staðar sé yfirsýn um það?